„Fullviss um að góð mæting og góðar einkunnir haldist í hendur“

Guðrún Lilja Sigurbjörnsdóttir Cooper dúx Fjölbrautaskólans við Ármúla.
Guðrún Lilja Sigurbjörnsdóttir Cooper dúx Fjölbrautaskólans við Ármúla.

„Ég er þess fullviss að góð mæting og góðar einkunnir haldist í hendur,“ segir Guðrún Lilja Sigurbjörnsdóttir Cooper sem var dúx Fjölbrautaskólans við Ármúla. Guðrún hlaut einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í efnafræði og frönsku en þau fög eru í uppáhaldi hjá henni. Guðrún er dóttir Elínar Báru Cooper og Sigurbjörns Jóhanns Grétarssonar og hefur búið í Kópavogi frá átta ára aldri.

Alls voru 150 nemendur brautskráðir úr Fjölbrautaskólanum við Ármúla á dögunum. 80 stúdentar, 60 nemendur úr heilbrigðisgreinum, tveir nemendur af nýsköpunar- og listabraut og sjö nemendur af sérnámsbraut.  

Aðspurð segir Guðrún að lykillinn að góðum námsárangri sé að stunda námið jafnt og þétt allan veturinn. Hún lærði vel heima og var sérstaklega vel undirbúin fyrir próf. Guðrún útskrifaðist úr Hússtjórnarskóla Reykjavíkur síðasta vor og var semí dúx þar. Þegar hún er ekki að læra finnst henni gaman að stunda handiðn og eyða tíma með fjölskyldu og vinum.

Í sumar vinnur Guðrún sem persónulegur aðstoðarmaður hjá fatlaðri stúlku en það mun gagnast henni í haust þar sem hún hyggur á nám við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hún ætlar þó einnig að nýta fríið í að ferðast og er á leið til Svíþjóðar á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert