Haftafrumvarpið samþykkt á 47 mínútum

Frumvarpið var samþykkt með 56 atkvæðum.
Frumvarpið var samþykkt með 56 atkvæðum. mbl.is/Golli

Frumvarp um þrengingu gjaldeyrishafta í aðdraganda afnáms þeirra var samþykkt á þingi í kvöld með 56 atkvæðum. Einn sat hjá, en afgreiðsla málsins tók aðeins um 47 mínútur. Fjörugar umræður sköpuðust um málið á þingi, en Össuri Skarphéðinssyni og Steingrími J. Sigfússyni var heitt í hamsi og veltu því upp hvort „leki hefði orðið úr herbúðum ríkisstjórnarinnar“ og valdið því að keyra þyrfti málið í gegn á sunnudagskvöldi.

Frétt mbl.is: Leki úr herbúðum ríkisstjórnarinnar?

Afgreiðsla málsins gekk hratt fyrir sig þar sem ekki þurfti að vísa málinu til efnahags- og viðskiptanefndar eftir fyrstu og aðra umræðu eins og kveðið er á um í þingskapalögum. Þetta kom til vegna þess að frumvarpið var lagt fram af nefndinni og var meðferð hennar með það því lokið.

Frétt mbl.is: Frumvarpið gengur ekki til nefndar

Frosti Sigurjónsson og Unnur Brá Konráðsdóttir voru á fundi efnahags- …
Frosti Sigurjónsson og Unnur Brá Konráðsdóttir voru á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í dag. mbl.is/Golli

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að lagabreytingunum sé ætlað að bregðast við þeim snið­gönguhættum sem skapast við losun fjármagnshafta til þess að standa vörð um stöðugleika í gengis- og peningamálum.

Þar segir að meginvandinn við losun fjármagnshafta felist í hættu á útflæði fjármagns um leið og höftin eru losuð, en mikið útflæði á stuttum tíma, samanborið við mögulegt innflæði, gæti á ný leitt til greiðslujafnaðarvanda og gengisfalls krónunnar vegna einhliða álags á gjaldeyrismarkað.

Frétt mbl.is: Gátu sniðgengið gjaldeyrishöftin

Í frum­varp­inu er því lagt til að lögaðilum verði aðeins heim­ilt að kaupa er­lend­an gjald­eyri vegna end­ur­greiðslu lána eða greiðslna áfall­inna ábyrgða inn­an sam­stæðu hafi lán eða ábyrgð verið veitt í tengsl­um við vöru- og þjón­ustu­viðskipti eða lán upp­fyll­ir skil­yrði 3. mgr. 13. gr. g.

Frum­varp­inu er þannig ætlað að mæta þeim hætt­um sem kunna að vera til þess falln­ar að grafa und­an mark­miðum aðgerða stjórn­valda um los­un fjár­magns­hafta en sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is verða tvö frum­vörp um los­un gjald­eyr­is­hafta kynnt fyr­ir þing­flokk­un­um í fyrra­málið, kynnt fyr­ir al­menn­ingi og lögð fyr­ir Alþingi.

Guðmundur Steingrímsson sló á létta strengi á þingi í kvöld og sagði væntingar fólks til fundarins eflaust hafa verið of miklar, eða það búist við að „stærra mál“ væri á dagskrá. Sagði hann að þær fjölskyldur sem settust við sjónvarpið með popp hefðu eflaust orðið fyrir vonbrigðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert