Fjármagnið verði ekki að kosningasjóði

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vil byrja á því að fagna þessum frumvörpum. Mér finnst þetta góð frumvörp og líta vel út, allavega við fyrstu sýn, og eru mjög í samræmi við þær áherslur sem við í Bjartri framtíð höfum lagt í þessum málum,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um afnám fjármagnshaftanna. 

„Ég tel að það hafi tekist, allavega sýnist mér það, að koma þessu málum í ábyrgan farveg og ábyrga umgjörð þó það hafi kannski kostað einhver átök á bak við tjöldin miðað við það hvernig menn hafa oft talað um þessi mál,“ sagði hann. Það væri þó með þeim fyrirvara um að eftir væri að fara yfir málið í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Guðmundur lagði ennfremur áherslu á mikilvægi þess að haft yrði taumhald á væntingum vegna þeirra fjármuna sem gert væri ráð fyrir að skiluðu sér til ríkisins samhliða afnámi fjármagnshaftanna. Meðal annars yrði að tryggja að þeir fjármunir yrðu ekki nýttir sem kosningasjóður stjórnarflokkanna fyrir næstu þingkosningar.

Þannig gæti skapast ákveðinn freistnivandi. Þessir fjármunir væru í raun sömu fjármunir og sett hefðu allt á hliðina í landinu á sínum tíma og að mikilvægt væri að tryggja að það gerðist ekki aftur. Kallaði hann eftir því að fjármunirnir yrðu notaðir til þess að greiða niður skuldir ríkisins og spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvort hann væri því ekki sammála.

Bjarni benti á að kveðið væri á því í frumvarpi stjórnvalda að nýta ætti mögulegt fjármagn til þess að greiða niður skuldir. Það ætti síðan eftir að koma í ljós með hvaða hætti fjármagnið skilaði sér til ríkisins eftir því í hvaða farveg þrotabú bankanna færu. Þá væri ekki hlaupið að því að finna skuldir sem hægt væri að greiða upp án þess að það gæti valdið óæskilegum áhrifum.

Því væri gert ráð fyrir því að í fjárlagafrumvarpi hvers árs væri farið yfir það sérstaklega með hvaða hætti mætti eigi að greiða upp skuldir, hvaða skuldir og að Seðlabankinn kæmi að málum hvað varðaði peningamagn í umferð. Svigrúmið til lengri tíma fælist fyrst og fremst í fallandi skuldum ríkissjóðs og þar með minni vaxtabyrði. Þar gæti verið um að ræða fjárhæðir upp á tugi milljarða.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka