Er eftirvagninn í lagi?

Samgöngustofa hvetur fólk til að hafa eftirtalin atriði í huga í stað þess að eiga á hættu að sumarleyfið sé eyðilagt vegna þess að slys á sér stað eða í besta falli að lögregla neyðist til að gera viðkomandi afturreka með eftirvagninn þar sem hann er ekki í lagi, því nú fer sumarleyfatíminn í hönd og þess vegna er rík ástæða til að hvetja þá sem eru með eftirvagna að sjá um að allt sé í lagi og að reglum sé fylgt.

Eftirvagn sem dreginn er af bíl, hvort sem það er kerra eða hjólhýsi, breytir aksturseiginleikum bílsins. Hann verður þyngri, óstöðugri og vill rása til á veginum. Vind tekur í og við verstu aðstæður getur eftirvagninn fokið út af veginum ásamt dráttarbílnum.

Tengibúnaður á að vera traustur, af viðurkenndri gerð og skráður í skráningarskírteini og öryggiskeðju skal alltaf nota.

Allir eftirvagnar eiga að vera með ljós sem eru hliðstæð aftur- og hliðarljósum bílsins.
Ef eftirvagn er breiðari en ökutækið og hindrar baksýni þarf að framlengja hliðarspegla bílsins báðu megin.

Þyngd eftirvagns má aldrei vera meiri en heimilt er samkvæmt skráningarskírteini dráttarbílsins.

Almenna reglan er sú að fólksbifreið og sendibifreið með eftirvagn má ekki aka hraðar en 80 km/klst.

Þurfi ökumaður að fara hægar en leyfður hámarkshraði segir til um skal haga akstri þannig að þeir sem geta og mega fara hraðar við bestu aðstæður geti tekið fram úr með öruggum hætti.
Skoðunarstofur bjóða upp á skoðun á ástandi eftirvagna og er fólk hvatt til að láta fylgjast með hvort allt sé í lagi. Hafa þarf í huga að tækin eru oft ónotuð stóran hluta ársins og því borgar sig að gera vandlega úttekt á ástandi þeirra.

Ökumaður þarf að standa klár á því hvort hann hafi tilskilin réttindi til að draga eftirvagn eða tengitæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert