Átta ára drengur slasast alvarlega í körfurólu

Barnið var flutt á slysadeild með sjúkrabíl.
Barnið var flutt á slysadeild með sjúkrabíl. mbl.is/Hjörtur

Fyrir tæpum mánuði slasaðist átta ára gamall drengur alvarlega á leiksvæði við grunn- og leikskóla. Drengurinn var ásamt öðrum börnum að leik í körfurólu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Herdísi L. Storgaard, sem er verkefnastjóri barnaslysavarna. 

Hún segir, að drengurinn hafi gengið að rólunni og ætlað að stoppa hana en í rólunni voru átta börn og hún á miklum hraða.

„Hann fær á sig þungt högg sem lendir á höfði og brjóstkassa með þeim afleiðingum að hann dregst með rólunni og lendir undir henni þar sem hann fær óeðlilega sveigju á bakið. Hann missir andann um stund en rankar við sér og er fluttur í sjúkrabíll á bráðamóttökuna.

Í læknisskoðun kemur í ljós að hann er hryggbrotinn og fer skömmu síðar í aðgerð.  Að svo stöddu er ekki hægt að segja fyrir um það hvaða afleiðingar áverkarnir koma til með að hafa en læknar höfðu orð á því að sögn móður að þeir hefðu aldrei áður séð slíkan áverka,“ segir í tilkynningunni.

Herdís segist hafa, í kjölfar slyssins, samband við aðila að evrópskri nefnd sem sé að endurskoða staðla yfir leikvallatæki þar á meðal yfir sambærilegar rólur.

„Í ljós kemur að nokkur alvarleg slys hafa átt sér stað í eða við þessar rólur og þar af eitt dauðaslys. Málið er litið alvarlegum augum og mun undirrituð senda skýrslu til nefndarinnar  en nauðsynlegt er að skoða bæði þungann og hraðann á rólunni. Það er með öllu óásættanlegt að leiktæki geti valdið dauðaslysum á börnum eða jafn alvarlegu slysi og um getur. Það skal tekið fram að rólan er gerð fyrir að mörg börn noti hana í einu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert