Læti, stress og „árás“ á Advania

Spennan var gríðarleg í bíl Landsbankaliðsins.
Spennan var gríðarleg í bíl Landsbankaliðsins. Af Facebook

Myndband sem tekið var í Wow Cyclothoninu sýnir ágætlega lætin og stressið sem geta brotist út á lokaspretti keppninnar. Við Kleifarvatn gerði hjólreiðalið Landbankans (Team Landsbankinn) „árás“ á Advania og HFR/Renault við Kleifarvatn. Fyrstu sprettirnir í árásinni tókust vel og Team Landsbankinn náði góðri forystu en enn gat ýmislegt klikkað eins og sést á myndbandinu.

Nú hafa safnast 21,5 milljónir í áheitasöfnun Wow Cyclothonsins en öll áheit renna til batamiðstöðvar á geðsviði Landspítalans á Kleppi. Hægt er að heita á liðin fram til morguns, þriðjudag.

Myndbandið má sjá neðst í fréttinni en hér fylgir fyrst frásögn hjólreiðaliðs Landsbankans af Kleifarvatnsorrustunni:

Við höfðum unnið með HFR/Renault og Advania frá því við lögðum upp á Öxnadalsheiði. Samvinnan hafði gengið eins og í sögu og það var góður andi á milli liðanna. Þegar við fórum að nálgast markið fór einstaka liðsmaður í HFR/Renault og Advania að nefna við okkur að ef til vill ættum við að hjóla saman í mark, við værum jú ekki að keppa í sömu flokkum, værum svipuð að styrkleika og svo framvegis. Við hlustuðum og jánkuðum en gáfum ekkert uppi. Við vorum með pókerfés.

Í Wowinu vinna liðin saman (skiptast á forystu til að kljúfa vindinn) en samt er þetta keppni. Spurningin var bara hvaða lið myndi byrja endasprettinn og hvenær árásin yrði gerð. HFR/Renault var feykiöflugt kvennalið og fór þar fremst í flokki María Ögn Guðmundsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari með epískt keppnisskap. Og í liði Advania voru margar hjólakempur. Það gæti orðið erfitt að svara vel útfærðri árás frá þessum liðum. Þau gætu jafnvel framið samsæri og gert sameiginlega árás. Við vorum á tánum. Treystum engum. Bjuggumst við hinu versta. Og við fundum að spennustigið í hinum liðunum var líka hátt.

Allt gert klárt fyrir úrslitastund

Á Hvolsvelli skiptum við liðinu upp þannig að í jeppanum voru nú alltaf fimm og svo hjólarinn úti; aðeins þeir sem ætluðu að taka þátt í lokaorrustunni.

Það var þó tíðindalítið á Vesturvígstöðvunum. Hraðinn jókst vissulega og það reyndi á að hjóla í þéttum hópi á yfir 40 km hraða. Á svona miklum hraða þurfa hjólarar að gæta að sér því möguleiki á árekstri þeirra á milli er alltaf til staðar. Ragnhildur Geirsdóttir, sem tók einn svona sprett, hafði á orði þegar hún kom inn að þetta hefði verið krefjandi og skemmtilegt í senn. Engin árás var þó gerð en nokkrum sinnum vorum við þó viss um að hún væri í uppsiglingu.

Þetta þýddi að við gátum tekið frumkvæðið. Við Kleifarvatn gerðum við árásina. Ragnar Þ. Ágústsson bombaði niður aflíðandi brekku þar sem Rúnar Pálmason tók við og sprengdi upp erfiða brekku á fullri ferð. Þannig náðum við verulegu forskoti á hin liðin. Við sáum að Advania brást við með því að setja út þrjá hjólara sem fóru smám saman að draga á Rúnar, enda þrír og gátu skipst á að vera fremstir.

Á brekkubrún tók Geir O. Ólafsson við og gaf allt í botn, svo Ragnar en hann setti örugglega nýtt hraðamet niður bratta og hlykkjótta brekku við Kleifarvatn. Þar átti Rúnar að taka aftur við en skiptingin mistókst, að hluta til vegna þess að við vanmátum hraðann á Ragnari og að hluta til vegna þess að Rúnari tókst ekki á þessum skamma tíma að festa skóna í pedulunum, eins og þarf að gera. Stressið og þreytan sögðu til sín.

Þetta var afleitt, vegurinn við Kleifarvatn er hlykkjóttur og þótt við sæjum ekki keppinautana gat vel verið að þeir væru á hælunum á okkur.

Ragnar þeysti fram hjá og þá var ekki annað að gera en að reyna aftur. Geir hélt á hjólinu hans Rúnars út um gluggann á jeppanum meðan við eltum Ragnar, við fórum fram úr og ætluðum að reyna aðra skiptingu sem varð að takast. Það er hún sem sést á myndbandinu. Okkur til mikillar skelfingar mistókst sú skipting einnig þar sem keðjan hafði nú dottið af hjólinu hans Rúnars. Ragnar varð því að hjóla áfram og hann lýsti því síðar að honum hafi fundist sem lungun væru að fyllast af blóði.

Við héldum því áfram á eftir honum, náðum honum og loksins tókst skiptingin.

Þrátt fyrir þetta klúður tókst okkur að halda forskotinu. Geir og Ágúst Sæmundsson átu malarkaflann á Vatnsskarði og svo tók við endaspretturinn niður Krýsuvíkurveg þar sem Finnur Sveinsson tók við.  Eftir það skiptum við hjólurunum út eins oft og við gátum. Sigurinn yfir Advania og HFR/Renault var í höfn.

Þegar við komum svo í mark og sáum þann stóra hóp af starfsmönnum Landsbankans sem beið eftir okkur í markinu leið okkur eins og við hefðum sigrað alla okkar keppninauta í Wow Cyclothoninu, ef ekki heiminn sjálfan.

Niðurstaðan: 16. sæti í heildarkeppni í B-flokki og silfur í flokki blandaðra liða (að hámarki 7 af öðru kyninu). Í raun tvöfaldur íslenskur sigur!

Í Team Landsbankinn voru þrjár konur og sjö karlar:

Arnór G. Hauksson, Ágúst Sæmundsson, Björk Hauksdóttir, Finnur Sveinsson, Geir O. Ólafsson, Hjörtur Logi Dungal, Ragnar Þ. Ágústsson, Ragnhildur Geirsdóttir, Rúnar Pálmason og Vigdís Sif Hrafnkelsdóttir.

Ágúst Sæmundsson tók myndbandið.

Kær fjölskylda og vinir. Takk fyrir hvatninguna, stuðninginn og áheitin á meðan ég og samstarfsfélagar mínir í Landsbankanum tókum þátt í WOW cyclothon árið 2015. Eins og myndbandið hér frá lokasprettinum úr Krýsuvík að Völlunum í Hafnarfirði sýnir er þetta keppni líka. Við lukum keppni í 16 sæti í heildarkeppninni á tímanum 42.43.20 og urðum í 2 sæti í flokki blandaðra liða. Þetta var bara dálítið skemmtilegt, hópurinn góður og veðrið snilld. ❤

Posted by Ágúst Sæmundsson on Thursday, June 25, 2015
Lið Landsbankans varð í 2. sæti í blönduðum flokki og …
Lið Landsbankans varð í 2. sæti í blönduðum flokki og í 16. sæti í heild. mbl.is
Landsbankamaður á fleygiferð við Klaustur.
Landsbankamaður á fleygiferð við Klaustur. Af Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert