„Þungbært og átakaþrungið og afar óskilvirkt“

Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata. Mynd úr safni.
Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata. Mynd úr safni.

Brynhildur Pétursdóttir sagði í eldhúsdagsumræðum ríkisstjórnina berja sér á brjóst fyrir að halda verðbólgunni lágri. Hún sagði spennandi að bíða eftir því hvort hún myndi þá kenna sjálfri sér um þegar verðbólgan kæmist á skrið aftur. Hún talaði um að stjórnmálamenn ættu yfirleitt að hafa afgerandi skoðanir með eða á móti málum. Hún hefði hins vegar missterkar skoðanir á ýmsum málum, en hún sagðist hins vegar vera alfarið á móti tveimur málum: Leiðréttingunni og afturköllun aðildarumsóknar Íslands að ESB.

Birgitta Jónsdóttir sagði þingið um margt hafa verið sérstakt. „Þungbært og átakaþrungið og afar óskilvirkt. Ég verð að viðurkenna að vonbrigði mín með stjórnarfarið og stjórnsýsluna á Íslandi eru djúpstæð. Ég er ekki ein um þessi vonbrigði,“ sagði Birgitta.

„Í samfélaginu er ákall um breytta forgangsröðun, um heiðarlegri vinnubrögð, um ábyrgð og aðhald, um jafnrétti og réttlæti, um aukna aðkomu að lýðræðislegum ákvarðanatökum,“ sagði hún. Hún sagði fordæmalausa hegðan og valdhroki margra ráðherra ríkisstjórnarinnar svo sannarlega ekki aukið tiltrú almennings á að hægt væri að treysta stjórnmálamönnum.

„Það er nefnilega ekki hægt að fara í neinar grundvallarbreytingar nema í samvinnu við ykkur, þjóðina. Píratar gera sér grein fyrir að við erum ekkert án ykkar og það er okkar einlæga stefna að þú ráðir kæri Íslendingur, að þú ráðir fleiru en að kjósa fulltrúa á þing, að þú fáir tækifæri til að taka þátt í að móta þitt framtíðarland í samvinnu við aðra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert