„Ekki hægt að sjá augljósari ástæðu“

Starfshópur um Guðmundar- og Geirfinnsmál kynnt niðurstöður skýrslu sinnar á …
Starfshópur um Guðmundar- og Geirfinnsmál kynnt niðurstöður skýrslu sinnar á fjölmennum blaðamannafundi í innanríkisráðuneytinu í lok mars 2013. mbl.is/Rósa Braga

„Ég bjóst raunar ekki við neinu öðru,“ segir Hafþór Sævarsson, sonur Sævars Ciesielski um niðurstöðu Davíðs Þórs Björgvinssonar, setts ríkissaksóknara. Hann komst að þeirri niðurstöðu að tilefni væri til að taka aftur upp mál Sævars, sem lést árið 2011.

Frétt mbl.is: Mál sem hefur lengi lifað með þjóðinni

„En það er gott að fá þetta staðfest. Þetta tók embætti ríkissaksóknara samt langan tíma,“ segir Hafþór sem vakti máls á þörf á endurupptökunni með bréfi til innanríkisráðherra árið 2011. Hann segir málið nú á borði endurupptökunefndarinnar. „Þetta er umsögn ríkissaksóknara til nefndarinnar. Hún tekur núna ákvörðun hvort hún nýtir heimildir sínar til að láta Hæstarétt taka málið upp aftur.“

Tímabært að afmá þennan smánarblett

Hann er sannfærður um að nefndi komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að taka málið upp aftur. „Mér finnst mjög ólíklegt að hún geri það ekki. Það er ekki á hverjum degi sem embætti ríkissaksóknara, sem ákærði í málinu og fékk dóm mælir með endurupptöku málsins. Það er ekki hægt að sjá augljósari ástæðu til að taka málið upp aftur.“

Hafþór hefur barist fyrir að málið verði tekið upp aftur frá því Sævar lést 2011. „Ég skrifaði ásamt systkinum mínum beiðni til Ögmundar Jónassonar, þáverandi innanríkisráðherra, um að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka hlið framkvæmdavaldsins í þessu máli. Það er löngu tímabært að afmá þennan smánarblett af íslenska réttarkerfinu,“ segir Hafþór.

Hafþór Sævarsson.
Hafþór Sævarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert