Vikuleg útköll á Esjuna

Björgunarsveitarfólkið hittist við Olís áður en haldið var af stað …
Björgunarsveitarfólkið hittist við Olís áður en haldið var af stað upp á Hálendi. mbl.is/Styrmir Kári

Í dag hófst hálendisvakt björgunarsveitanna í tíunda skipti þegar fjórir hópar sjálfboðaliða héldu til fjalla. Tveir hópar fara að Fjallabaki í Landmannalaugar og einnig fara tveir hópar í Öskju en farið verður á þriðja staðinn, inn á Sprengisand, um leið og fært verður.

Lagt var upp frá Olís í Norðlingaholti í dag og var Landsbjörg með nokkur fjórhjól á staðnum sem börn fengu að máta sig við undir vökulu auga foreldra. Hjólin eru þó engar venjulegar rúntgræjur heldur mikilvæg tæki í útköllum.

„Þessi hjól nýtast vel í Esjuna en líklega er Esjan að verða sá staður þar sem flest útivistarslys verða í dag,“ segir Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar. „Þetta er enginn bæjarhóll, þetta er bara alvöru fjall. Ég giska á að þessi hjól séu að fara í útköll upp á Esjuna í hverri viku.“

Verkefni Landsbjargar á síðasta ári voru um 2.000 talsins. Af þeim voru 500 sem voru flokkuð sem alvarlegri tilfelli og af þeim voru 92 slys og fjölgaði þeim nokkuð frá árinu á undan. „Það er alveg ljóst með fjölgun ferðamanna að það verði fleiri á ferðinni uppi á hálendi og má gera ráð fyrir því að einhver lendi í vandræðum, sérstaklega ef það verða leysingar því fæstir af gestum okkar eru sérfræðingar í að keyra yfir óbrúaðar ár og læki. En við stöndum vaktina sem fyrr og reynum að aðlaga okkur að aðstæðum eins og hægt er.“

Þurfum að líta okkur nær

Smári, segir ærin verkefni fyrir björgunarsveitirnar á hálendinu en að einnig hafi margsinnis tekist að afstýra verkefnum  með viðveru á staðnum. „Markmið okkar með hálendisvaktinni er fyrst og fremst að upplýsa og leiðbeina ferðafólki og koma þá í veg fyrir einhver óhöpp og slys. Ef í nauðina rekur erum við þá nær vettvangi og tilbúin ef á þarf að halda.“

Aðstæður á hálendinu eru nokkuð sérstakar miðað við árstíma og nefnir Smári sérstaklega að mikill snjór sé að Fjallabaki og á Sprengisandi og að ljóst sé að mikið verði í ám, vötnum og lækjum þegar hlýindi láti á sér kræla. „Svo gerum við ráð fyrir mikilli umferð í Öskju þar sem menn vilja kíkja á Holuhraun. Þar eru aðstæður miklu betri þar sem það er lítið um snjó þar sem verið er að keyra. Það er meiri snjór í Öskjunni sjálfri en þar er það göngufólk sem þarf að klífa skaflana.“

Björgunarsveitirnar mega þola tíð útköll vegna ferðafólks sem er illa búið eða les ekki rétt í aðstæður og hafa samfélagsmiðlar jafnan logað þegar fréttir af slíku berast. Smári segir liðsmenn Landsbjargar ekki gera mannamun á hverja þeir aðstoða.

„Ég held að hvað erlenda ferðamenn varðar ættum við að líta okkur aðeins nær. Við erum búin að bjóða þá velkomna til landsins en þá er spurning hvort við höfum ekki gleymt að upplýsa þá um kenjar okkar og náttúrunnar. Ég held að fæstir þessara ferðalanga þekki þessar aðstæður sem við búum við svo eflaust ættum við að fræða þá betur.“

Heilög vika á hverju ári

Guðrún Katrín Jóhannsdóttir er hópstjóri í Hálandavaktinni og má varla vera að því að ræða við blaðamann þar sem hún stendur og hífir bakpoka og annan búnað út úr einum af bílum Landsbjargar.  Þó svo að vinnan sé mikil og ólaunuð setur hún það ekki fyrir sig og hefur hún verið sjálfboðaliði í Landsbjörgu í sex ár.

„Ég hef alltaf verið útivistarmanneskja og ég er með björgunarhund og það var það sem dró mig af stað. Þetta er svo fjölbreitt, skemmtilegt og góður félagsskapur að maður bara sinnir þessu eins og maður getur,“ segir hún.

Hún segir  stóran hluta af sínu sumarfríi fara í björgunarsveitirnar , mikill tími fari í hundaþjálfun en að hún telji þann tíma ekki eftir sér. „Hálendisgæslan er bara heilög vika á hverju ári. Þetta er einn af toppunum á árinu.“

Hún segir að á hálendinu taki hóparnir því sem að höndum ber. „Við vitum ekkert hvernig dagurinn verður þegar við vöknum svo við bara förum um og hjálpum. Annað hvort keyrum við fram á verkefnin eða fáum þeim úthlutað frá lögreglu. Svo við sinnum þeim, sofum þegar við getum og borðum þegar við getum. Það er alveg álag að vera tíu saman í kofa upp á hálendi í tíu daga og stundum verður fólk pirrað en í lok dagsins hristir maður það bara af sér og allir eru félagar.“

Þegar Guðrún er ekki á ferð og flugi uppi um fjöll og firnindi er hún skrifstofublók  og starfar sem vörustjóri og innkaupafulltrúi í Reykjavík. „Það er talsvert öðruvísi en það er mjög gott að komast aðeins út og taka á því,“ segir hún og hlær.

Erfiðustu útköllin segir Guðrún vera þau þar sem hún hefur komið að fólki sem hefur tekið sitt eigið líf og nefnir einnig að henni þyki sérstaklega erfitt að leita að börnum.  „Það skemmtilegasta er félagskapurinn og spennan. Þetta er 99 prósent skemmtilegt

Smári Sigurðsson segir helsta hlutverk hálendisvaktarinnar vera að upplýsa og …
Smári Sigurðsson segir helsta hlutverk hálendisvaktarinnar vera að upplýsa og leiðbeina. mbl.is/Styrmir Kári
Þessi ungi maður tók sig vel út á hjólinu.
Þessi ungi maður tók sig vel út á hjólinu. mbl.is/Styrmir Kári
Guðrún segir starfið vera 99 prósent skemmtilegt.
Guðrún segir starfið vera 99 prósent skemmtilegt. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert