Metumferð á höfuðborgarsvæðinu í júní

Aldrei hefur mælst meiri umferð í einum mánuði á höfuðborgarsvæðinu og í júní síðastliðnum. Umferðin jókst um heil átta prósent frá því í júní í fyrra og hefur aukningin á milli mánaða aðeins einu sinni mælst jafnmikil. Þetta kemur fram í um­fjöll­un á vefsíðu Vega­gerðar­inn­ar um um­ferðina á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu.

Eins og komið hefur fram var umferðarmet slegið á hringveginum í júní, og er því ljóst að það sama er upp á teninginn í borginni. 

Umferð jókst mikið á öllum götum þar sem mælingar eru gerðar en mest á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi eða um 10,5%. Þessi mikla aukning varð til þess að aldrei hafa fleiri bílar ekið yfir mælisniðin þrjú í einum mánuði, en alls er áætlað að um 147 þúsund ökutæki hafi farið daglega í gegnum þau í nýliðnum júní.

Það sem af er ári hefur umferð aukist um 2,6% borin saman við sama tímabil á síðasta ári sem er hófleg aukning miðað við árstíma að því er fram kemur í umfjölluninni.

Þá hefur umferðin aukist alla vikudaga frá áramótum. Hlutfallslega séð hefur umferð aukist mest á þriðjudögum eða um 3,9% en minnst á föstudögum eða um 1,1%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert