Hleypur upp Esjuna á þremur fótum

Kátur ber nafn með rentu.
Kátur ber nafn með rentu. Ljósmynd/ Jóhann Jökull Sveinsson

„Maður hittir oft fólk á förnum vegi sem maður er búinn að tala við í smá stund þegar það segir „heyrðu hann er bara þrífættur?!“,“ segir Jóhann Jökull Sveinsson, annar eiganda hundsins Káts.

Kátur lenti fyrir bíl í apríl og missti þá hægri afturlöppina en hefur náð undraverðum árangri á stuttum tíma. Í vikunni birti Jóhann mynd af Káti við steininn Stein á Esjunni þangað sem hann hafði hlaupið án vandræða á þremur jafnfljótum og hefur skjótur bati hans vakið nokkra athygli.

Jóhann og kærasta hans, Salný Björg Emilsdóttir fengu Kát þegar hann var 11 mánaða í gegnum Dýrahjálp. Þá hafði hann flakkað á milli nokkurra heimila og á einu þeirra sætti hann illri meðferð. Margir myndu veigra sér við að taka dýr af slæmum heimilum en Jóhann segir að þeim hafi fundist ættleiðing það rétta í stöðunni.

„Við áttum í raun ekki fyrir því að kaupa dýran hund en það sem skipti mestu máli var að við vissum af því hversu marga hunda vantar heimili. Svo er Kátur alveg yndislegur,“ segir Jóhann og bætir því við að hann sé einnig sérlega barngóður.

Að lóga eða aflima

Bílslysið þar sem Kátur missti fótinn líður Jóhanni seint úr minni. Hann var að bera sófa inn á heimili sitt við Rauðarárstíg og missti augun á Káti í smá stund. Kátur hljóp á eftir ketti út á götu og beint fyrir bíl sem nauðhemlaði og bremsaði yfir löppina á honum. Káti brá eðlilega og áður en Jóhann gat náð til hans var hann hlaupinn í burtu.

„Ég sá þetta ekki gerast en ég heyrði það, ég hljóp á eftir honum en hann var svo fljótur að ég missti af honum. Þá hringdi stelpa í mig og sagði mér að hann væri blóðugur efst á Skólavörðustígnum.“

Jóhann og Salný fóru með Kát á Dýraspítalann í Garðabæ. Atvikið átti sér stað að kvöldi til og þar sem enginn skurðlæknir var á vakt var bundið vel um fótinn með blautgrisju og Kátur sendur heim yfir nóttina.

„Þessi nótt var hræðileg. Hann var í svo miklu sjokki og fékk mikinn niðurgang. Hann er svo góður og leið rosalega illa með það að kúka inni, vildi alltaf vera að standa upp og fara út svo ég þurfti að halda á honum. Það var ekki mikið sofið.“

Daginn eftir fóru Jóhann og Salný aftur með hann á dýraspítalann þar sem skurðlæknir tekur hann til skoðunar. Korteri síðar fá þau símtal þar sem læknirinn segir að aðeins séu tveir kostir í stöðunni, að lóga eða aflima Kát.

„Það var aldrei nein spurning,“ segir Jóhann ákveðinn. „Við vorum ekki með hann tryggðan og aðgerðin kostaði 250 þúsund krónur sem við borguðum með glöðu geði með góðri hjálp aðstandenda okkar. Hann var sendur beint í aðgerð og kom heim seinna um daginn.“

Á Esjuna eins og ekkert væri

Hinn afturleggur Káts varð einnig fyrir bílnum og þurfti að sauma nokkur spor en að sögn starfsfólks spítalans gat hann þó gengið á fætinum strax og hann vaknaði eftir aðgerðina. Þegar heim var komið gekk hann sjálfur úr bílnum og inn í bælið sitt og segir Jóhann þrautsegju vinar síns hafa komið öllum á óvart.

„Vegna saumanna í hinum fætinum þurfti að fara mjög rólega af stað en hann vildi strax fara að hlaupa, við þurftum eiginlega að halda svolítið aftur að honum en vorum farin að fara með hann í stutta göngutúra á öðrum degi.“

30. júní síðastliðinn, rúmum tveimur mánuðum eftir að hafa misst fótinn, hljóp Kátur svo keikur ásamt eigendum sínum upp á Esju.

„Við erum búin að vera að farra með hann í sífellt lengri göngutúra til að þjálfa afturlöppina. Svo var komið að því að taka svolítið stórt stökk og það var bara ekkert mál,“ segir Jóhann. „Hann var svolítið þreyttur þegar hann kom heim en ekkert meira en gengur og gerist.“

Jóhann og Salný kunna Dýrahjálp miklar þakkir fyrir að hafa leitt þau og Kát saman og ekki minnkar þakklætið þegar kemur að starfsfólki Dýraspítala Garðabæjar sem hlúði að honum að alúð og bjargaði lífi hans.

„Hann er eiginlega meira en bara dýrið okkar, ég get ekki sagt að hann sé barnið okkar en hann er besti vinur okkar. Við erum svo glöð að hann skyldi lifa af og með hversu ótrúlega vel þetta gengur. Við elskum þennan  hund út af lífinu.“

Jóhann, Kátur og Salný eru afar lukkulegt þríeyki.
Jóhann, Kátur og Salný eru afar lukkulegt þríeyki. Ljósmynd/ Jóhann Jökull Sveinsson
Kátur hélt sig að mestu í bælinu allra fyrst en …
Kátur hélt sig að mestu í bælinu allra fyrst en var fljótur að vilja aftur á stjá. Ljósmynd/ Jóhann Jökull Sveinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert