„Spennufallið kemur annað kvöld“

Á morgun lýkur hringferð Karls Friðrikssonar og Grétars Gústavssonar á traktorum.  Með ferðalag­inu hafa þeir safnað pen­ing til styrkt­ar Vináttu – for­varn­ar­verk­efni Barna­heilla gegn einelti. „Núna erum við staddir á Hvolsvelli og skröltum í bæinn á morgun um þrjú,“ segir Karl í samtali við mbl.is.

„Í dag ætlum við að fara á Selfoss og stoppa hjá umboðsaðila Mass­ey Fergu­son. Vegalengdirnar eru stuttar núna, miðað við það sem við höfum farið.“ Lengsta dagleið félaganna var frá Akureyri til Egilsstaða. „Eftir það erum við öllu vanir.“

Karl og Grétar fengu skemmtilega fylgd undir Eyjafjöllum í gær. „Bændur komu á móti okkur á dráttarvélum og gömlum bílum sem tengdust meðal annars safninu á Skógum og keyrðu með okkur dágóðan tíma undir Eyjafjöllum. Eftir það fórum við í heimsókn til eins bónda á Áshólsskála og drukkum þar kaffi og með því og spjölluðum við bændur. Gaman þegar fólk tekur þetta upp á sig að mæta okkur á þennan hátt.“

Karl neitar því ekki að hann sé frekar „hristur“ eftir ferðlagið. „Við erum með smá ryðu, það er erfitt að neita því. Þetta er eins og að vera á sjó; þú venst sjónum en færð smá ryðu þegar þú kemur í land.“

Þeir hafa ekki enn orðið varir við fólk sem er pirrað á traktorunum en þeir hljóta hins vegar mikla athygli. „Stundum keyra bílar framhjá okkur og koma aftur og taka þá myndir.“

Ferðinni lýkur formlega í Olís í Norðlingaholti um klukkan þrjú á morgun. „Spennufallið kemur annað kvöld!“

Hægt er að leggja söfn­un­inni lið með því að hringja í 904-1900. Hvert sím­tal kost­ar 500 krón­ur, eða senda sms í sama núm­er sem kost­ar einnig 500 krón­ur.

Einnig má leggja inn á banka­reikn­ing Barna­heilla 0334-26-4521, kt. 521089-1059.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert