Pólitíkusar sekir en ekki almenningur

AFP

Frumorsök vandans eru þó Grikkir sjálfir, fyrst og fremst ráðandi stjórnmálaflokkar, sem á níunda áratug síðustu aldar hófu mikla skuldasöfnun á tímum þegar gríðarlegt framboð var á lánsfé og vextir mjög hagstæðir.“

Þannig ritar Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, á Facebook-síðu sína í dag þar sem hann fjallar í löngu máli um efnahagserfiðleika Grikklands og samskipti þeirra við alþjóðlega lánadrottna sína. Lánin hafi óábyrgir stjórnmálamenn tekið beinlínis til þess að tryggja sig í sessi með því að uppfylla kosningaloforð um að þenja út lífeyriskerfi landsins og lækka skatta.

Þeirra er mesta sökin, en ekki almennings, sem nú líður miklar þrautir fyrir óforsjálni skammsýnna stjórnmálamanna,“ segir Össur. Hins vegar liggi ábyrgðin líka hjá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Rifjar hann upp að Grikkir hafi fengið aðild að evrusvæðinu á fölsku forsendum. Þeir hafi með aðstoð erlendra sérfræðinga fegrað stöðu ríkisfjármála sinna. Meðal annars skuldastöðu ríkisins.

ESB horfði framhjá blekkingum Grikkja

„Sekt, eða ábyrgð ESB, liggur í því að allir vissu þetta. Það voru pólitíkusar ESB sem settu kíkinn fyrir blinda augað, vitandi vits að Grikkir voru að svindla. Þess vegna liggur mikil ábyrgð á þeim. Það réttlætir kröfuna um að þeir taki hluta skuldanna á sig,“ segir hann og bætir við að þegar Grikkir hafi komist í þrot 2009 hafi hik, tafir og ráðleysi einkennt viðbrögð Evrópusambandsins. Meðal annars hafi verið deilt um aðkomu AGS.

„Liðsinnið í fyrstu lotum vandans var of naumt til að ráða bót á honum. Árið 2012, þegar ráðist var í skuldaniðurfellingar af hálfu lánadrottna, einkum þýskra og franskra banka, urðu þær ekki nema helmingur þess sem þurfti. Ónóg viðbrögð ESB, Evrópska seðlabankans og AGS eiga því líka þátt í að magna vandann,“ segir Össur áfram. Framganga alþjóðlegra lánadrottna Grikkja setti frekari skyldu á þá að greiða úr vanda Grikkja.

Össur fjallar ítarlega um spillingu og vanhæfni innan stjórnsýslu Grikklands. Meðal annars þurfi almennir borgarar að múta embættismönnum til þess að úrlausn mála sinna. Skattkerfi landsins sé „stórfurðulegt og einkennist af miklum skattaundanþágum.“ Stórar atvinnugreinar eins og skipasmíði greiði enga skatta. Skattheimtan sjálf sé í molum, allt að sex virðisaukaskattþrep séu fyrir hendi sem auðveldi skattaundanskot sem séu mikil.

Efnaðir Grikkir „rúið Grikkland innan frá“

Vegna langs aðdraganda telur Össur að áhrif mögulegs brotthvarfs Grikkja af evrusvæðinu verði takmörkuð þar sem erlendar fjármálastofnanir og önnur ríki hafi haft tíma til þess að lágmarka áhættu sína í þeim efnum. Ólíkt því sem hafi verið áður. Þetta hafi sést vel á því að niðurstaða þjóðaratkvæðisins í Grikklandi um kröfur alþjóðlegra lánadrottna landsins um síðustu helgi hafi haft takmörkuð áhrif á mörkuðum. Það auki líkurnar á að Grikkir fái að sigla sinn sjó.

Hins vegar hafi ríkisstjórn Grikklands undir forystu róttæka vinstriflokksins Syriza gert þau mistök að setja ekki strax á fjármagnshöft í landinu. Fyrir vikið hafi efnaðir Grikkir „rúið Grikkland innan frá og flutt allt sitt fjármagn og eignir út úr landinu síðustu fimm mánuði eða frá því Syriza tók við. Öll lánafyrirgreiðsla troíkunnar á þessum tíma hefur runnið í gríska banka, þar sem efnamenn hafa mokað því út og flutt erlendis. Þetta var vondur afleikur á vakt Syriza.“

Össur veltir ennfremur fyrir sér framhaldinu. Annað hvort náist samkomulag á milli grískra stjórnvalda og alþjóðlegra lánadrottna Grikklands eða Grikkjum verði gert að yfirgefa evrusvæðið. Það síðarnefnda hefði í för með sér gríðarlega gengislækkun nýs gjaldmiðils, miklar hækkanir erlendra skulda gríska ríkisins og versnandi lífskjör almennings. Á móti myndi ferðamannaiðnaðurinn og útflutningsgreinar fá innspýtingu.

Vaxandi fáleikar á milli Merkel og Schäubles

„Verði Grikklandi bolað gegn eigin vilja út úr evrunni með því að láta banka tæmast og greiðslumiðlunarkerfin lokast yrðu það endalokin á farsælum ferli Angelu Merkel. Síst af öllu vill þýski kanslarinn að evrusvæðið bíði hnekki á hennar vakt. Henni er því lífsnauðsyn að ná samkomulagi. Það vilja Grikkir líka,“ segir Össur áfram og veltir því fyrir sér hvort Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, eigi eftir að fara gegn henni.

Merkel standi frammi fyrir þeirri stöðu að Schäuble vilji Grikki af evrusvæðinu og hafi lengi viljað það. Þannig hafi hann kallað eftir því að það gerðist strax eftir því 2009 með skipulögðum hætti. Þá hafi ekki mátt heyra á það minnst. Hins vegar sé ekki lengur í boði að það gerist með þeim hætti. Schäuble hafi öflugan stuðning á þýska sambandsþinginu og njóti einnig stuðnings margra ríkja innan Evrópusambandsins í andstöðu sinni við að fella niður hluta grískra skulda.

„Þessi staða skýrir vaxandi stríðleika síðustu sólarhringa í yfirlýsingum Merkels. Hún þarf að finna einstigi á milli eigin pólitískra þarfa sem felast í að halda Grikkjum innan evrunnar og herskárra skoðana síns eigin fjármálaráðherra sem vill þá út. Milli þeirra eru vaxandi fáleikar og í þýskum stjórnmálum velta menn því fyrir sér hvort Wolfgang Schauble hyggist láta til skarar skríða gegn Merkel í málinu – og jafnvel fella hana af stalli.

Verra fyrir ESB ef Grikkir fara af evrusvæðinu

Grískir ráðamenn hafi að mörgu leyti farið fram úr sér. Þjóðaratkvæðið um síðustu helgi hafi falið í sér mikla áhættu. Tilgangur þess hafi öðrum þræði verið að fela að þeir gætu ekki náð samningum eins og þeim sem þeir hafi lofað kjósendum sínum. „Þeir töldu að Grikkir ættu meiri stuðning við kröfur sínar og andstöðu við niðurskurðarstefnu Þjóðverja gagnvart velferðakerfum Evrópu sem svari við kreppunni. Annað kom að lokum á daginn.

Össur lýkur yfirferð sinni á þeim orðum sínum að þegar „tanngnístran“ linni hjá evrópskum stjórnmálamönnum renni upp fyrir þeim að verði Grikkir hraktir af evrusvæðinu tapist hærri upphæðir en ella. Þá fáist ekkert greitt til baka upp í skuldbindingar gríska ríkisins. „Hver sem niðurstaðan verður, og hvort sem Grikkjum tekst að halda sér innan evrunnar, er þó ljóst, að þeirra bíða miklir erfiðleikar. Jafnvel gríski regnboginn er líklegur til að skipta litum og verða svarthvítur um langa hríð.“

Fréttaskýring:Gríska tragedían – allar lausnir auka kvöl og pínu Grikkja.Skuldir Grikkja eru algerlega ósjálfbærar....

Posted by Össur Skarphéðinsson on Tuesday, July 7, 2015
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP
Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands.
Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands. AFP
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert