Kynna íslenskan bjór í Lundúnum

Danir 04: Árni Long tekur sýni úr tunnu af bjórnum …
Danir 04: Árni Long tekur sýni úr tunnu af bjórnum Garúnu.

Borg Brugghúsi hefur verið boðin þátttaka í London Beer Carnival 2015 (LBC15) sem fram fer í Lundúnum í október. Bruggmeistari Borgar segir það mikinn heiður að vera boðið að taka þátt í hátíðinni en á henni safnast saman mörg af bestu brugghúsum heims. Meðal þeirra brugghúsa sem taka þátt í hátíðinni í ár eru Evil Twin,  Priarie Artisan Ales, Anchorage og BUXTON.

„Þetta er mikill heiður fyrir brugghúsið. Manni finnst maður voða svalur fyrir það eitt að vera á þessum lista,“ segir Árni Long bruggmeistari Borgar í samtali við mbl.is. Fimmtíu brugghúsum er boðið að taka þátt í hátíðinni og að sögn Árna eru þau flest mjög stór og þekkt í bransanum fyrir gæði.

Mæta með tólf gerðir af bjórum

„Við þurfum að mæta með tólf gerðir af bjórum,“ segir Árni. „Við erum að gera mjög mikið af nýjum vörum á hverju ári og við fengum nokkuð góðan fyrirvara á þessari hátíð og höfum verið að sanka að okkur til þess að gera valið það allra besta.“

Meðal þeirra bjóra frá Borg sem kynntir verða á hátíðinni eru  Freki Brett IPA, Surtur Imperial stout, Leifur Saison, Garún imperial stout, Úlfur IPA og 14-2 White stout sem er samstarfsbjór Borg Brugghús og Nørrebro Bryghus.

Þar að auki verða nokkrir bjórar sem hafa ekki verið framleiddir áður.

„Flestir bjóranna hafa verið í boði á Íslandi eða verða það á næstunni,“ segir Árni. „En elsti bjórinn á listanum er samt bara hálfsárs gamall.“

Alltaf gaman að hitta kollegana

Árni segir LBC15 óhefðbundna bjórhátíð að því leyti að henni er skipt upp í sex hluta og hver hluti stendur yfir í aðeins nokkra klukkutíma. Í hverjum hluta kynnir hvert brugghús tvo bjóra. „Á flestum bjórhátíðum er þetta þvílíkt ógrynni af bjórum sem boðið er upp á og það er engin leið að komast yfir það. Manni er boðið kannski upp á þúsund bjóra á einum degi. En með þessu fyrirkomulagi er enginn ógerningur að komast yfir allt ef maður fær lítil smökk,“ segir Árni.

Árni segist vera spenntur fyrir hátíðinni enda skemmtir hann sér alltaf vel á bjórhátíðum. „Það er alltaf mjög gaman, sérstaklega að hitta kollegana. Þetta er lítil stétt, sérstaklega hérna heima og fáir í þessum bransa þannig maður lærir alltaf eitthvað nýtt.“

Gróskan er frábær

Mikil gróska er í bruggbransanum hér á landi og spretta nýjar íslenskar bjórtegundir upp eins og gorkúlur. „Þetta er hluti af því að vera í svona litlu samfélagi,“ segir Árni. „Þegar það verður einhver vitundarvakning verða allir meðvitaðir strax. En þessi gróska er alveg frábær fyrir okkur, fólk er að sýna okkar vörum mikinn áhuga og fjölbreytnin hefur aukist mikið.“

Árni hefur haft áhuga á bruggi í rúmlega tíu ár. „Ég man þegar ég byrjaði að spá í þessu á sínum tíma voru kannski fimm eða sex tegundir í Vínbúðinni sem manni fannst eitthvað öðruvísi. Í dag telur það í hundruðum.“

Freki Brett IPA fer til Lundúna í haust.
Freki Brett IPA fer til Lundúna í haust. Ljósmynd/Borg Brugghús
Úlfur IPA
Úlfur IPA Ljósmynd/Borg Brugghús
Árni Long & Valger Valgeirsson – bruggmeistarar Borgar Brugghúss
Árni Long & Valger Valgeirsson – bruggmeistarar Borgar Brugghúss
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert