„Hugur fylgdi ekki máli“

Bjarni segir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar ekki koma sér á óvart.
Bjarni segir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar ekki koma sér á óvart. mbl.is/Golli

„Það kemur ekki á óvart að samningur við hjúkrunarfræðinga skyldi falla í atkvæðagreiðslu, þar sem enginn var að tala fyrir samningnum,“ segir fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson um niðurstöðu í atkvæðagreiðslu um kjarasamning Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið.

Frétt mbl.is: Hjúkrunarfræðingar felldu samninginn

Samningurinn var felldur með 1677 atkvæðum, eða 88,4% greiddra atkvæða. „Það er greinilegt að ekki fylgdi hugur máli þegar skrifað var undir. Nú gengur málið til gerðardóms og við verðum að vonast til þess að þar fáist niðurstaða sem fyrst sem hægt er að byggja á,“ segir Bjarni.

Eru málin þá komin aftur á byrjunarreit, eins og þau stóðu áður en skrifað var undir?

„Það má segja það.“

Ólafur G. Skúlason er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Ólafur G. Skúlason er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Golli

Byggir á vilja og ætlun löggjafans

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði í samtali við mbl.is í dag að látið yrði reyna á lögmæti þess að skipa gerðardóm í deilunni fyrir dómstólum. Bjarni segir málið hins vegar skýrt, enda hafi samningnum verið hafnað.

„Mín afstaða byggir á því sem var vilji og ætlun löggjafans. Þetta er óskaplega einfalt. Það voru sett lög á verkfallsaðgerðir og fært í hendur gerðardóms að ákveða kjörin ef ekki næðust samningar. Nú liggur fyrir að ekki tókust samningar og þá er alveg skýrt í mínum huga að málið gengur til gerðardóms,“ segir Bjarni. 

Frétt mbl.is: Segir deiluna fara fyrir gerðardóm

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, tók í sama streng og Bjarni í samtali við mbl.is fyrr í dag. Þannig hefði samningurinn verið undirritaður með fyrirvara um samþykki félagsmanna og honum verið hafnað þar. Þ.a.l. væri staðan eins og áður en samningar voru undirritaðir. Um hugsanlegt dómsmál vegna skipunar gerðardóms tjáði hann sig annars lítið. „Þeir verða þá bara að láta reyna á það,“ sagði Gunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert