Laugavegshlaupið farið af stað

400 manns ræstu frá Landmannalaugum í morgun.
400 manns ræstu frá Landmannalaugum í morgun. Andri Thorstensen

Laugavegshlaupið hófst núna klukkan 9 í morgun, en 405 keppendur lögðu af stað úr Landmannalaugum áleiðis í Húsadal í Þórsmörk. Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi hlaupsins, segir að ræsingin hafi gengið mjög vel. Segir hún að það hafi verið ansi kalt í Landmannalaugum og smá gjóla, en bjart yfir og vindurinn í bakið á hlaupurunum. „Þetta leit vel út í byrjun,“ segir hún.

Fyrsti maður kom í Hrafntinnusker eftir 53 mínútur, en það var Þorbergur Ingi Jónsson. Sigraði hann hlaupið í fyrra og segir Anna að hann hafi sagst ætla að koma á þessum tíma í Hrafntinnusker í ár.

Nokkuð hefur verið rætt um erfiðara færi á leiðinni í ár, en af um 55 kílómetrum eru um 8 kílómetrar í snjó. Frá Landmannalaugum í Hrafntinnusker eru um 10 kílómetrar og segir Anna að fyrstu snjóalögin byrji eftir 7 kílómetra. Því var Þorbergur búinn að hlaupa í um 3 kílómetra í snjó þegar hann kom í Hrafntinnusker. Anna segir að snjórinn sé því ekki að hafa jafn mikil áhrif á hlauparana og menn höfðu hræðst.

Þorbergur var kominn með örugga forystu klukkan 11:10, en þá var hann hálfnaður með hlaupið.

Gert er ráð fyrir að fyrstu menn komi í Húsadal milli 13 og 14 í dag, en Anna segir að starfsmenn hafi farið þangað strax á fimmtudag til að setja upp tjaldbúðir og gera klárt fyrir keppendur að koma í mark.  

Andri Thorstensen
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert