Haglinu lemur niður á Selfossi

Íbúum á Selfossi brá við haglið áðan.
Íbúum á Selfossi brá við haglið áðan. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúum á Selfossi brá heldur betur í brún áðan þegar haglél hóf að falla til jarðar í bænum. Eflaust hafa einhverjir litið á dagatalið og velt fyrir sér hvort þá væri að dreyma. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir loftið óstöðugt og þá geti þessar aðstæður skapast, jafnvel þó það sé hásumar.

„Það eru eldingar suður af landinu og það má búast við þessu eitthvað fram eftir degi,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, við mbl.is. „Eldingin var rétt suður af Reykjanestánni. Við höfum ekki fengið fleiri skilaboð um slíkt.“

Elín segir haglið stafa af því að úrkoman myndist í köldu lofti og nái ekki að hlýna nógu mikið á leið til jarðar. „Droparnir verða til í lofti undir frostmarki og eru enn kaldir þegar þeir koma niður, ná lítið að bráðna á leið niður til jarðar.“ Úrkoman myndast því ofar en venjulega.

Hún er ekki tilbúin að taka undir með blaðamanni að þessar aðstæður séu óvenjulegar miðað við árstíma. „Þetta er ekkert óvenjulegt í alvöru skúrauppstreymi en yfirleitt þarf meiri yfirborðshita. Núna er loftið sem er að koma upp að landinu sem er mjög óstöðugt og þá gerist þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert