Smitaðar af HIV-veirunni

Sjúkdómurinn sem karlmaður af erlendum uppruna er grunaður um að hafa smitað ungar konur af er HIV. Þetta staðfestir Haraldur Briem sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Maðurinn er í frétt á vef RÚV sagður nígerískur hælisleitandi sem kom hingað til lands í ágúst.

„Þetta er HIV-smit sem veldur alnæmi. Það er alvarlegur sjúkdómur. Helstu smitleiðirnar eru kynmök og skipti á sprautum og nálum. Veiran getur þannig borist manna á milli,“ segir Haraldur og bendir á að veiran kann að vera einkennalaus framan af.

„Þetta er veira sem veldur kannski engum einkennum framan af en smám saman eyðileggur hún ónæmiskerfið og getur leitt til alvarlegra sjúkdóma og dauða ef ekkert er gert. Nú er náttúrulega til meðferð við þessu en hún gagnast ekki nema að fólk viti af sjúkdómnum.“

Ekki hefur verið gefið upp með hvaða hætti konurnar hafi smitast.

Haraldur segir að nú sé unnið að því að finna hversu umfangsmikið málið er, en það er gert með svokallaðri smitrakningu. Segir hann slíka vinnu gerða daglega hjá embættinu. Aðspurður hvað málið tengdist mörgum í dag vildi Haraldur ekkert gefa upp um það.

Málið kom upp fyrir skömmu síðan þegar fyrsta greiningin á sér stað. Í kjölfarið var hafin smitrakning sem hefur leitt málið að þeim stað sem það er í dag. Haraldur segir að erfitt sé að greina hvenær smitið sjálft hafi átt sér stað, en það gæti þó verið mun lengri tími.

Eins og fyrr segir smitast HIV helst í gegnum kynmök eða með skiptum á sprautum og nálum. Aðspurður hvort munur væri á smiti milli kynjanna segir Haraldur að jafnan sé talið líklegra að karlmenn smiti, en það skipti ekki máli í stóra samhenginu og smit geti hæglega farið í báðar áttir.

Sjá frétt mbl.is: Erlendur karlmaður grunaður um að smita konur af alvarlegum sjúkdómi

Haraldur Briem.
Haraldur Briem. mbli.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert