Jafnvel lögreglan fær blekkingabréf

Mikilvægt er að verja tölvupóst fyrir innbrotum.
Mikilvægt er að verja tölvupóst fyrir innbrotum. Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

„Ég er staddur í Bristol?“ segir rannsóknarlögreglumaðurinn Þórir Ingvarsson þegar blaðamaður nær af honum tali. Spurningarmerkið við enda setningarinnar kann að vekja furðu en þannig er í pottinn búið að Þórir er hreint ekki staddur í Bristol heldur vísar hann til fyrstu setningar fjöldatölvupósts sem óprúttnir aðilar hafa sent í tugþúsundatali frá netföngum Íslendinga.

Í efnisreit tölvupóstanna stendur iðulega „Hjálp!“ og í meginmáli fylgir tíundun á bjagaðri íslensku á því hvernig eigandi netfangsins hafi týnt töskunni sinni, vegabréfi og öllum verðmætum í breskri borg, t.a.m. í Newcastle, Liverpool nú eða Bristol.

Flestir geta líklega getið sér til hvaða ósk fylgir í framhaldinu enda er brellan gömul. Viðtakandinn er beðinn um að leggja pening inn á erlendan reikning til að bjarga eiganda netfangsins. Sá kom að sjálfsögðu hvergi nálægt bréfaskrifunum því þar voru bíræfnir svindlarar á ferð. 

Fjölmargir Íslendingar hafa orðið fyrir barðinu á póstþrjótunum og m.a. fann Gísli Marteinn sig tilknúinn að láta Twitter fylgjendur sína vita af því í ágúst í fyrra að hann væri hreint ekki blankur í Bristol

Einn bitið á agnið

„Það er grunur um að þetta sé gert með ýmsu móti,“ segir Þórir um aðferðirnar sem þrjótarnir nota til að brjótast inn á tölvupóst fólks. „Stundum er það þannig að lykilorðinu að tölvupóstinum er breytt og svo eru þessir Google-translate póstar sendir út á allan netfangalistann hjá viðkomandi. Stundum hef ég meira að segja fengið þetta á abendingar@lrh.is. Þá hefur viðkomandi einhvern tíma sent okkur nótu og þá fáum við líka þetta bréf.“

Þórir segir að auk þeirra falsbeiðna sem berist beint í ábendingapóstinn hafi margir viðtakendur gert lögreglu viðvart. Kveðst hann vita til þess að í það minnsta einu sinni hafi einstaklingur hér á landi bitið á agnið og sent fé til útlanda. 

Mikilvægt er að fólk sé meðvitað um hvernig á að verjast innbrotum á tölvupóstföng.

„Það er þetta klassíska að breyta lykilorðum reglulega og nota þau tæki og tól sem tölvupóstþjónusturnar bjóða upp á til að minnka líkurnar á því að brotist sé inn á reikningana,“ segir Þórir og nefnir því í samhengi öryggisspurningar og símavaraleiðir. „Svo er auðvitað hitt að passa sig líka erlendis að vera ekki að nýta sér ókeypis og óvarðar nettengingar.“

Nígeríubréfin snúa aftur

„Þetta er sent út í gríðarlegu magni og oftar en ekki eru þetta erlendir aðilar,“ segir Þórir. „Þegar við höfum rannsakað þessi mál hafa póstarnir komið frá löndum þar sem er mjög erfitt að fá upplýsingur um IP tölur og verið er að nota netkaffihús o.s.frv,“

Fyrir tíma tölvuþrjóta bárust álíka beiðnir með hefðbundnari póstleiðum og þar sem flest bréfin komu frá Nígeríu voru slíkar sendingar kallaðar Nígeríubréf. Þó nú sé öldin önnur og ekki hægt að alhæfa neitt um upprunaland tölvupóstanna virðist svindltískan ganga í hringi eins og aðrar tískubylgjur.

„Gömlu Nígeríubréfin voru send á pappír og þegar tölvupósturinn kom varð allt rafrænt. Svo erum við byrjuð að sjá bréfin aftur núna,“ segir Þórir. „En maður veit ekkert hvaðan þetta er að koma.“

Í lok samtalsins minnist undirrituð á að þrátt fyrir að málnotkunin í nýjasta blekkingarbréfinu sem henni barst sé nokkuð skrautleg megi merkja skýrar framfarir frá skrumskældri íslensku eldri tölvupósta. Víst er að tækninni fleygir fram og Google translate með en kenning Þóris er þó áhugaverðari tilhugsun. „Kannski hafa þeir verið í kvöldskóla?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert