Tölvuþrjótar brjótast inn í pósthólf Íslendinga

Brotist var inn í pósthólf Gísla Marteins í morgun.
Brotist var inn í pósthólf Gísla Marteins í morgun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tölvupóstur var sendur út af netfangi Gísla Marteins Baldurssonar sjónvarpsmanns í morgun, þar sem beðið var um að lagður væri inn á hann peningur. Gísli stendur þó ekki fyrir póstinum sjálfur, en tölvuþrjótar brutust inn á netfangið hans og sendu póstinn.

„Ég vona að þú færð þetta hratt, ég er í Bristol, Bretland og ég hafði töskuna mína stolið ásamt vegabréfi mínu og kreditkort í sendiráði it.“

Svona hljóma fyrstu línurnar í tölvupóstinum sem sendur var út af netfangi Gísla Marteins í morgun. Gísli Marteinn stendur þó ekki fyrir póstinum sjálfur, en brotist var inn á netfangið hans og pósturinn sendur á hina ýmsu aðila þar sem þeir voru beðnir um að leggja inn á hann pening. Gefið er upp símanúmer í póstinum, sem beðið er um að hringt sé í til að ganga frá greiðslunni.

Gísli segist í samtali við mbl.is ekki hafa fundið fyrir óþægindum vegna þessa. Hann skrifaði þó til vina sinna á samfélagsmiðlunum Twitter og Facebook þar sem hann tók fram að hann væri ekki staddur í Bristol og vantaði ekki peninga.

Gísli Marteinn er ekki sá fyrsti sem verður fyrir barðinu á tölvuþrjótum, en fjölmargir Íslendingar hafa lent í svipuðum aðstæðum þar sem tölvuþrjótarnir senda pósta í þeirra nafni og gefa oftar en ekki upp símanúmer.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir fólk ekki eiga í hættu á himinháum símreikningum hringi það í þessi númer. „Verðskráin gefur upp kostnað til hvers lands og því verður fjárhagslegt tjón ekki meira af því að hringja í svona númer en kostar almennt að hringja til viðkomandi lands,“ segir hún, en fleiri mál hafa komið upp í sumar þar sem fólk fær hringingar frá erlendum númerum og er beðið um að hringja til baka. „Þetta er hvimleitt og tekur tíma,“ segir Gunnhildur, „en þetta er ekki fjárhagslegur skaði umfram það að hringja til útlanda almennt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert