Fær 36 milljónir króna fyrir sigurinn

Katrín Tanja Davíðsdóttir fær rúmar 36 milljónir fyrir sigurinn á …
Katrín Tanja Davíðsdóttir fær rúmar 36 milljónir fyrir sigurinn á heimsleikunum í Crossfit. Ljósmynd/Berserkur

Góður árangur Íslendinganna á heimsleikunum í Crossfit skilar sér heldur betur í budduna. Sigurvegararnir í kvenna- og karlaflokki fá um 36 milljónir króna í sinn hlut. Annað sætið hlýtur rúmar 12 milljónir og þriðja sætið rúmar átta.

Auk þess eru veitt peningaverðlaun fyrir sigur í hverri grein fyrir sig upp á 400 þúsund krónur.

Katrín Tanja Davíðsdóttir sigraði í kvennaflokki og fær því 36 milljónir í sinn hlut auk milljón til viðbótar fyrir velgengni í einstaka greinum. Björgvin Karl Guðmundsson og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir sem lentu í þriðja sæti í karla- og kvennaflokki fá rúmar átta milljónir í sinn hlut. Björgvin og Ragnheiður sigruðu í einni grein hvort og fá því 400 þúsund krónur til viðbótar. 

Eins og kom fram í frétt mbl.is eftir að Annie Mist Þórisdóttir sigraði í keppninni á sínum tíma er verðlaunafé sem þetta skattskylt á Íslandi.

Sjá yfirlit yfir verðlaunafé á heimsleikunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert