Hrotti handtekinn

AFP

Lögreglan handtók skömmu eftir miðnætti mann á sextugsaldri sem veittist að sambýliskonu sinni neðarlega á Laugavegi. Maðurinn neitaði að segja til nafns og hrækti í andlit lögreglumanns.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning klukkan 00:20 um mann sem væri að veitast að konu neðarlega á Laugavegi. 

Lögreglumenn sem voru skammt frá komu á vettvang og stöðvuðu manninn og færðu hann í lögreglubifreið. Maðurinn veittist að tæplega fimmtugri sambýliskonu sinni.  

Hann neitaði alfarið að gefa upp nafn og hrækti í andlit lögreglumanns sem sat í aftursæti lögreglubifreiðarinnar.  Maðurinn var færður á lögreglustöðina og síðan í fangaklefa. Við öryggisleit fundust á honum nokkrir skammtar af kannabisefnum.  

Lögreglumaðurinn sem fyrir hrákanum varð leitaði á slysadeild og mun hann fara í rannsóknir vegna mögulegs smits.  

Sá handtekni mun þurfa að svara fyrir við yfirheyrslu um, brot á áfengislögum, ölvun á almannafæri, ofbeldi gagnvart opinberum starfsmanni, segja ekki til nafns, ofbeldi gagnvart maka, líkamsárás og vörslu fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert