„Eina tónlistarhátíðin um helgina“

Sumar og sól er það sem flestir vonast eftir þegar …
Sumar og sól er það sem flestir vonast eftir þegar verslunarmannahelgin gengur í garð. mbl.is/Styrmir Kári

Verslunarmannahelgin nálgast nú óðfluga og víst er að margir hlakka til að leggja land undir fót þessa fornfrægu ferðahelgi. Fjölmargar hátíðir fara fram vítt og breitt um landið í tilefni helgarinnar og eru þær jafn ólíkar og þær eru margar.

Hátíðin Ein með öllu er haldin venju samkvæmt á Akureyri en meðal þeirra sem fram koma þar má nefna Eyþór Inga, Maríu Ólafsdóttur, Dúndurfréttir, Pál Óskar, Úlf Úlf, Amabadömu og loks þá félaga Sveppa og Villa.

Ein með öllu á unglingalandsmóti UMFÍ

Davíð Rúnar Gunnarsson framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir í samtali við mbl.is að undirbúningur gangi frábærlega og að nú bíði aðstandendur aðeins eftir því að gestir fari að streyma í bæinn. Ein með öllu hefur haft orð á sér fyrir að vera fjölskylduvæn hátíð og Davíð segir það enga tilviljun.

„Það er það sem við höfum verið að reyna í gegnum tíðina. Að fjölskyldur geti komið hingað og haft það notalegt án þess að þurfa að þola mikil læti. Svo taka skemmtistaðirnir náttúrlega við á kvöldin og nóttunni en þá er fjölskyldufólkið jafnan farið að sofa langt frá miðpunkti næturlífsins.“

Hátíðin Ein með öllu skemmtir Akureyringum og gestum á ári …
Hátíðin Ein með öllu skemmtir Akureyringum og gestum á ári hverju. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Stefnir í metþátttöku

Lengi vel var verslunarmannahelgarhátíð Akureyrar kölluð Halló Akureyri en svo er ekki lengur. Í raun segir Davíð að hátíðin hafi verið lögð niður í þeirri mynd um aldamótin.

Í ár vill svo til að landsmót UMFÍ er einnig haldið á Akureyri og því búast heimamenn við að fjöldi þeirra sem sæki bæinn heim muni tvöfaldast. „Auðvitað kostar ekkert inn þannig við eigum erfitt með að telja þetta. Jafnan hafa komið hingað svona 10 til 12 þúsund manns. En við teljum bara frekar brosin í andlitum hátíðargesta enda er það miklu skemmtilegra.“

Dagskráin hefst formlega á morgun með svokölluðum fimmtudagsfíling í boði Goða og sjónvarpsstöðvarinnar N4.

Skráningar á unglingalandsmót UMFÍ hafa gengið mjög vel og stefnir í metþátttöku að sögn Ómars Braga Stefánssonar framkvæmdastjóra mótsins. Eru mótshaldarar í skýjunum með þátttökuna að því er segir á vef félagsins.

Þeir sem ekki leggja leið sína úr borginni geta notið …
Þeir sem ekki leggja leið sína úr borginni geta notið rafmagnaðra Reykjavíkurnátta á Innipúkanum. mbl.is/Styrmir Kári

Glæsileg dagskrá Innipúkans

Tónlistarhátíðin Innipúkinn verður haldin í höfuðborginni fyrir þá sem af einhverjum ástæðum vilja ekki skella tjaldinu í skottið og bruna út á land. Innipúkinn teygir sig yfir þrjá daga og hefst á föstudagskvöld. Fer hún fram samtímis á tónleikastöðunum Húrra og Gauknum sem liggja við Naustin í Kvosinni.

Að sögn aðstandenda er dagskrá hátíðarinnar í ár sérstaklega glæsileg en þar koma meðal annars fram Jakob Frímann Magnússon & Amabadama, Maus, Retro Stefson, Steed Lord, Sin Fang, Vök, Mammút, Sóley og Big Band Samúels Jóns Samúelssonar.

Ásgeir Guðmundsson skipuleggjandi hátíðarinnar segir í samtali við mbl.is að undirbúningur hafi gengið óvenju vel. „Það er mjög þægileg tilfinning að vera svona vel undirbúinn og geta siglt inn í helgina tiltölulega afslappaður. Allur gangur hefur verið á því þessi 14 ár hvernig staðan er þessa síðustu daga fyrir hátíðina en hún er góð í ár.“

Hátíðin ferðast víða innan borgarinnar

Frá því Innipúkinn fór fyrst fram árið 2002 hefur hann verið haldinn víða. „Á einhverju tímabili var hann til húsa í Iðnó, þá var hann í Faktorý áður en hann kom hingað á Gaukinn og Húrra. Hann hefur líka verið hérna í Naustunum áður en þá hétu staðirnar bara eitthvað annað,“ segir Ásgeir.

„Á sínum tíma var hátíðin stofnuð til höfuðs útihátíðunum sem voru alltaf að reyna að stimpla sig sem tónlistarhátíðir, sem þær eru í grunninn ekki. Innipúkinn er eina tónlistarhátíðin á Íslandi um verslunarmannahelgina, það er nú bara þannig sem það er.“

Mýrarboltinn nýtur mikilla vinsælda en Evrópumeistaramótið fer fram á Ísafirði …
Mýrarboltinn nýtur mikilla vinsælda en Evrópumeistaramótið fer fram á Ísafirði ár hvert. mbl.is/Sigurjón

Skítamórall heldur ball á EM í mýrarbolta

Evrópumeistaramótið í mýrarbolta fer fram á Ísafirði um helgina og hefst dagskráin á föstudag, þar sem Blaz Roca skemmtir í íþróttahúsinu á Torfnesi. Keppnin sjálf hefst svo á laugardeginum áður en hljómsveitin Skítamórall skemmtir lýðnum á „almennilegu balli“ að því er segir á vef mótsins.

Hefð er fyrir lokahófi á sunnudagskvöldinu og verður enginn munur þar á í þetta sinn. Þar verða verðlaun afhent fyrir leiki dagsins og hápunktar mótsins rifjaðir upp, uns sveitin Retro Stefson stígur á svið og skemmtir gestum.

Neskaupstaður er vettvangur hátíðarinnar Neistaflugs um hverja verslunarmannahelgi.
Neskaupstaður er vettvangur hátíðarinnar Neistaflugs um hverja verslunarmannahelgi. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Neistar fljúga á Neskaupstað

Á Neskaupstað hefst hátíðin Neistaflug á morgun klukkan fjögur þegar bærinn verður skreyttur. Að því loknu er svokölluð sundlaugargleði í sundlaug Norðfjarðar áður en hljómsveitin Valdimar lýkur kvöldinu með tónleikum í Egilsbúð.

Meðal annarra atriða á dagskrá hátíðarinnar má nefna strandblakmót, Gunna og Felix, golfmót, dorgveiðikeppni, sykurpúðagrill, brunaslöngubolta og eldspúara. Þá verða böll haldin með Siggu Beinteins, Todmobile og Í svörtum fötum yfir helgina.

Þjóðhátíð í Eyjum hefur lengi verið fjölmennasta hátíðin sem fram …
Þjóðhátíð í Eyjum hefur lengi verið fjölmennasta hátíðin sem fram fer um verslunarmannahelgina. mbl.is/GSH

Úrval tónlistarmanna á þjóðhátíð í Eyjum

Venju samkvæmt fer þjóðhátíð í Eyjum fram um helgina og hefst dagskráin á föstudag með setningu hátíðarinnar. Meðal þeirra sem fram koma á hátíðinni í ár eru Friðrik Dór, Sálin hans Jóns míns, Land & synir, Bubbi & Dimma, Sóldögg, Nýdönsk, Amabadama, Jón Jónsson, Maus, FM Belfast og Páll Óskar.

Ljóst er að Eyjamenn og gestir hafa úr nógu að velja á hátíðinni auk þess sem nóg verður um dýrðir utan dalsins eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag.

Dóra Björk Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ÍBV vill ekki gefa upp hversu marga miða er búið að selja á hátíðina en miðasalan gengur þó vel að hennar sögn. Verið er að leggja lokahönd á skipulagningu hátíðarinnar.

Síldarævintýrið á Siglufirði nýtur vinsælda jafnt hjá ungum sem öldnum.
Síldarævintýrið á Siglufirði nýtur vinsælda jafnt hjá ungum sem öldnum. mbl.is/Sigurður Ægisson

Gullgrafarastemning á Siglufirði

Þegar síldargöngur náðu hámarki í kringum Ísland unnu þúsundir verkamanna og -kvenna við síldina sem landað var á Siglufirði og var nokkurs konar gullgrafarastemning ríkjandi, að því er fram kemur á vef Fjallabyggðar. Þessa stemningu er reynt að endurskapa ár hvert með Síldarævintýrinu á Siglufirði, eins og hátíð bæjarins nefnist.

Dagskrá hátíðarinnar er þéttpökkuð og meðal þeirra sem skemmta gestum verða Sveppi & Villi, Svavar Knútur, Sóli Hólm, Ylja og Sirkus Íslands.

Bátaferðir eru vinsælar meðal þeirra sem sækja Vatnaskóg heim.
Bátaferðir eru vinsælar meðal þeirra sem sækja Vatnaskóg heim. Ljósmynd/Júlíus Helgi Eyjólfsson

Fjölskylduhátíð í Vatnaskógi

Skógarmenn KFUM ásamt KFUM og KFUK á Íslandi standa fyrir vímulausri fjölskylduhátíð um verslunarmannahelgina undir heitinu Sæludagar í Vatnaskógi. Dagskrá hátíðarinnar er að sögn aðstandenda í anda sumarbúðastarfs samtakanna og á að höfða til flestra aldurshópa.

Hátíðin hefst annað kvöld en svæðið opnar klukkan 19. Miðasala fer fram í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK og í síma 588-8899 en einnig í sjálfum Vatnaskógi um helgina. Dagskránna má sjá hér.

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn býður til tónlistarveislu í garðinum á sunnudag.
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn býður til tónlistarveislu í garðinum á sunnudag. mbl.is/Styrmir Kári

Tónlistarveisla í Laugardalnum

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn fagnar um þessar mundir 25 ára afmæli sínu og af því tilefni verður efnt til glæsilegrar tónlistarveislu í garðinum klukkan 14:30 á sunnudag. Fram munu koma Amabadama, Glowie, Dísa og Jack Magnet Quintet, en venjulegur aðgangseyrir mun gilda þennan dag sem aðra daga.

Aðsókn á tónleika í garðinum um verslunarmannahelgina hefur á undanförnum árum verið mjög mikil, því þrátt fyrir að margir séu á faraldsfæti eru ennþá fleiri í Reykjavík þessa helgi, að því er fram kemur á vef garðsins.

Álfaborgarsjens verður haldinn hátíðlegur á Borgarfirði eystri.
Álfaborgarsjens verður haldinn hátíðlegur á Borgarfirði eystri. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Hundur í óskilum fyrir austan

Á Borgarfirði eystri fer fram hátíðin Álfaborgarsjens sem á sér áratugalanga sögu. Hefst hátíðin á föstudag með hinu árlega hagyrðingamóti í Fjarðarborg auk þess sem tónlist verður leikin eftir mótið og fram eftir nóttu. Á laugardaginn býður hljómsveitin Hundur í óskilum upp á stórtónleika sem hefjast klukkan 21:30.

Kotmótið er krisitleg fjölskylduhátíð sem haldin er af Hvítasunnukirkjunni.
Kotmótið er krisitleg fjölskylduhátíð sem haldin er af Hvítasunnukirkjunni.

Vönduð dagskrá í Fljótshlíð

Kotmót Hvítasunnukirkjunnar er haldið að Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð. Kotmótið er kristileg fjölskylduhátíð sem haldin er af Hvítasunnukirkjunni á Íslandi. Ásamt vandaðri dagskrá mótsins er haldið barnamót sem býður upp á vandaða dagskrá fyrir þau yngstu. Unglingar fá einnig sína dagskrá auk þess sem haldnir eru ýmsir fjölskylduviðburðir, að því er fram kemur á vef Hvítasunnukirkjunnar.

Norðanpaunk á Laugarbakka

Á Laugarbakka fer fram tónlistarhátíðin Norðanpaunk. Fjörutíu hljómsveitir stíga þar á stokk, þar af þrjár erlendar, að því er fram kemur á Facebook-síðu hátíðarinnar. Meðal þeirra sem koma fram eru hljómsveitirnar Saktmóðigur, Harry Knuckles, Krupskaya, Pink street boys, Hellvar, Kuml ásamt Kælunni miklu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert