Viðskiptaþvinganir eru einsdæmi

Rússneska sendiráðið. Héðan er vandlega fylgst með umræðum á Íslandi …
Rússneska sendiráðið. Héðan er vandlega fylgst með umræðum á Íslandi um samskipti og viðskipti þjóðanna. mbl.is/Eggert

Íslendingar og Rússar hafa ekki fyrr en nú beitt hvor aðra beinum efnahagslegum þvingunum. Viðskipti landanna hófust eftir stríð og hafa stundum haft verulega þýðingu fyrir fjárhags- og atvinnuástand hér á landi.

Aðeins eru tvö ár frá því að Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, lýsti ánægju yfir því að í langri sögu samskipta ríkjanna hefðu „engin alvarleg vandamál eða ágreiningur“ komið upp. Ekki er þetta þó alls kostar rétt. Skoðanamunur var lengi hér á landi um ýmsa þætti þessara viðskipta. Ýmislegt gekk og á bak við tjöldin. Í ársbyrjun 1991 gáfu Rússar í skyn að þeir myndu slíta viðskiptunum við Ísland ef ríkisstjórnin styddi sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna.

Fyrstu viðskiptin 1946

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur segir að viðskipti Íslands og Rússlands hafi hafist stuttu eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Rússland var þá hluti Sovétríkjanna sem liðuðust í sundur árið 1991. Nýsköpunarstjórnin undir forsæti Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, með Sósíalistaflokkinn innanborðs, leitaði á þessum tíma markaða fyrir frosinn fisk og fleiri fiskafurðir frá Íslandi vegna aukinnar framleiðslu. Sósíalistaflokkurinn var leynt og ljóst í nánum tengslum við sovésku kommúnistastjórnina og það hefur án vafa haft áhrif á afstöðu Rússlands til viðskipta við Íslands. Vorið 1946 tókust samningar um að Rússar keyptu héðan 15 þúsund tonn af frystum fiski og talsvert af saltsíld og lýsi. Greitt var fyrir vörurnar í Bandaríkjadollurunum. Frá Rússlandi keyptu Íslendingar timbur og kol. Þjóðviljinn, málgagn Sósíalistaflokksins, kallaði samninginn við Rússa „merkasta atburð í viðskiptasögu Íslands“.

Stjórnarþátttöku Sósíalistaflokksins lauk síðar þetta sama ár og Íslendingar ákváðu tveimur árum seinna að þiggja Marshall-aðstoð Bandaríkjamanna og skipuðu sér í sveit vestrænna ríkja í kalda stríðinu. Þá breyttust viðhorf Rússa. Þeir vildu ekki halda viðskiptunum áfram. Guðni veltir því fyrir sér hvort kannski megi kalla það viðskiptaþvingun á sinn hátt.

Samfelld viðskipti frá 1953

Afstaða Rússa til viðskipta við Ísland gerbreyttist fimm árum seinna. Þá áttu Íslendingar í landhelgisdeilu við Breta, sem leiddi til þess að löndunarbann var sett á íslenska togara í Bretlandi. Alvarlegt ástand var þá að skapast í íslensku efnahagslífi. „Ráðamenn í Moskvu vildu byggja upp þá mynd af sér að þeir væru vinir Íslands í raun,“ segir Guðni. Pólitísk sjónarmið hafi vafalaust ráðið miklu þegar samið var um kaup Rússa á miklu magni af fiskafurðum frá Íslandi á þessum tíma. Ekki var greitt fyrir í dollurum eins og fyrr heldur var um vöruskipti að ræða; fengu Íslendingar olíu og bensín, sement og járn. Samningurinn sem var gerður í ágúst 1953 markaði upphaf viðskipta sem ekki áttu eftir að rofna fyrr en nú með ákvörðun Rússa að setja viðskiptabann á Ísland vegna stuðnings ríkisstjórnarinnar við takmarkaðar viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna og Vestur-Evrópuríkja.

Höfðu í hótunum

Íslensk stjórnvöld stóðu þétt við hlið bandamanna sinna í Atlantshafsbandalaginu á tíma kalda stríðsins. Stjórnvöld hér tóku jafnan undir ályktanir þar sem ýmsar aðgerðir Rússa í Austur-Evrópu og víðar, mannréttindabrot og útþenslustefna, voru fordæmdar. En þetta hafði ekki áhrif á viðskipti þjóðanna. Þeim var haldið áfram þrátt fyrir mikinn pólitískan ágreining.

Í byrjun áttunda áratugarins, þegar vinstristjórn áformaði uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin, voru uppi sögusagnir um að Rússar væru að tjaldabaki að beita stjórnina þrýstingi um að hraða málinu með því að gefa í skyn að ella gætu viðskipti landanna verið í hættu. Birtust m.a. um þetta fréttir í erlendum fjölmiðlum og hér í Morgunblaðinu. Þessu var þó harðlega mótmælt af ráðherrum í ríkisstjórninni.

Guðni segir að gögn sýni ótvírætt að ráðamenn í Moskvu hafi í byrjun tíunda áratugarsins haft í óbeinum hótunum við Íslendinga um framhald viðskipta eftir að Íslendingar lýstu yfir stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna sem innlimuð höfðu verið í Sovétríkin með hervaldi í lok seinni heimsstyrjaldar. Var sendiherra Íslands í Moskvu m.a. kallaður í utanríkisráðuneytið þar í janúar 1991 þar sem hann fékk að heyra að Íslendingar gætu átt von á „harkalegum gagnaðgerðum“ sem gætu haft áhrif á samskipti þjóðanna.

Ekkert varð af þessu, enda hrundi þetta mikla stórveldi sama ár. „Athyglisvert er að í ársbyrjun 1991 sátu íslenskir embættismenn við samningaborð við Rússa í Moskvu á sama tíma og þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, var í Eystrasaltslöndunum og fordæmdi ofbeldi sem rússneskar sérsveitir beittu í landinu,“ segir Guðni. „Íslendingar hefðu þá getað sagt að þeir ættu ekki í viðskiptum við þá sem kúguðu smáþjóðir. Það gerðu þeir ekki. Kremlverjar hefðu getað tilkynnt að þeir myndu ekki semja um frekari viðskipti nema Íslendingar hættu stuðningi við aðskilnaðarsinna í Eystrasaltslöndunum. En til þess kom ekki.“ Þegar Alþingi samþykkti í febrúar 1992 að viðurkenna sjálfstæði Litháens kölluðu Rússar sendiherra sinn á Íslandi heim. Sneri hann ekki aftur fyrr en nokkrum mánuðum seinna.

Vildu minnka viðskiptin

Þegar Rússar réðust inn í Afganistan í desember 1979 tóku Íslendingar undir harða gagnrýni alþjóðasamfélagsins á þá. Í janúar 1980 samþykktu fastafulltrúar Atlantshafsbandalagsins, þar á meðal fulltrúi Íslands, að aðildarþjóðirnar skyldu draga úr viðskiptum við Rússa til að refsa þeim fyrir innrásina. Ekki er að sjá að neitt hafi verið gert hér á landi til að fylgja þessari samþykkt eftir. Reyndar virðast Bandaríkjamenn einir hafa beitt Rússa viðskiptaþvingunum vegna innrásarinnar.

Hér á landi kom stundum til umræðu að fá mætti í öðrum löndum betri og ódýrari vörur en þær sem keyptar voru af Rússum í vöruskiptum fyrir fiskafurðir héðan. Einkum var rætt um olíu og bensín í því sambandi. Íslensku fyrirtækin sem áttu í viðskiptum við Rússa brugðust jafnan illa við þessum umræðum og hefur því oft verið lýst hér í blaðinu hvernig reynt var að þagga niður í ritstjórum Morgunblaðsins sem létu nokkuð að sér kveða í gagnrýni á viðskiptin við Rússa.

Ár er liðið síðan íslensk stjórnvöld ákváðu að taka þátt í viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins og fleiri ríkja gegn rússneskum yfirvöldum í mótmælaskyni við framferði þeirra í Úkraínu. Þvinganirnar eru á takmörkuðum sviðum. Þetta leiddi til þess að Rússar ákváðu að banna innflutning á matvælum frá viðkomandi ríkjum. Ísland var þó í hópi nokkurra ríkja sem undanskilin voru banninu án þess að upplýst væri um ástæður þess. Eftir að viðskiptaþvinganir Vesturlanda voru ítrekaðar nú í sumar með þátttöku Íslands breyttist afstaða Rússa. Nú hafa þeir ákveðið að loka á allan innflutning á íslenskum fiskafurðum í eitt ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert