Vill framlengja innflutningsbannið

Rússnesk stjórnvöld gætu framlengt innflutningsbann á matvælum frá Vesturlöndum, þar á meðal Íslandi, til loka árs 2017, að sögn Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands. Vilji hans stendur til þess.

Stjórnvöld í Moskvu samþykktu árið 2014 að banna innflutning á matvælum frá fjölmörgum Vesturlöndum sem höfðu samþykkt að grípa til refsiaðgerða gegn Rússlandi vegna framferðis Rússa í Úkraínu. Íslensk stjórnvöld taka þátt í viðskiptaþvingununum.

Leiðtogar margra vestrænna ríkja tilkynntu á fundi G7-ríkjanna fyrr í dag að aðgerðunum gegn Rússum yrði haldið til streitu þar til þeir hefðu uppfyllt skuldbindingar sínar í Úkraínu samkvæmt Minsk-samkomulaginu svonefnda.

Medvedev sagðist í gær ekki aðeins vilja framlengja innflutningsbannið um eitt ár, heldur til loka árs 2017. Að óbreyttu rennur bannið út eftir þrjá mánuði.

Ákvörðun um að framlengja bannið er háð samþykki Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, að því er segir í frétt Moscow Times.

Rússnesk stjórnvöld halda því fram að Vesturlöndin hafi orðið af um 9,3 milljörðum Bandaríkjadala, sem jafngildir um 1.164 milljörðum króna, vegna innflutningsbannsins.

Rússar settu Ísland á lista yfir þau ríki sem sæta banninu í ágúst á síðasta ári. Bannið nær til allra sjávarafurða og landbúnaðarvara að undanskildu lambakjöti, ærkjöti, hrossakjöti og niðursoðnu fiskmeti.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði fyrr í vikunni að þýskir ráðamenn væru meðvitaðir um að andstaðan við refsiaðgerðirnar gegn Rússum hefði aukist innan Evrópusambandsins.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í síðustu viku að hún reiknaði með því að refsiaðgerðirnar yrðu framlengdar um sex mánuði.

Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands.
Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert