Pálmi fær gögn vegna símhlerana

Pálmi Haraldsson.
Pálmi Haraldsson. mbl.is/Sverrir

Ríkissaksóknari hefur snúið við þeirri ákvörðun sérstaks saksóknara að afhenda ekki Sigurði G. Guðjónssyni, lögmanni Pálma Haraldssonar athafnamanns, gögn í tengslum við símhleranir hjá Pálma.

Sigurður krafðist þess árið 2012 að fá gögnin afhent frá sérstökum saksónara sem neitaði að afhenda þau.

Þetta kom fram í Fréttablaðinu í morgun.

Sigurður segist í samtali við mbl.is vilja vita á hvaða forsendum héraðsdómari kvað upp úrskurð sinn sem heimilaði símhleranir. „Það verður gaman að sjá hvað kemur, á hverju þessi aðgerð var byggð, hvaða röksemdafærslur lágu að baki henni og hvaða gögn voru lögð fyrir héraðsdómarann, sem ég held að hafi verið afskaplega fátækleg.“

Sími Pálma var hleraður frá og með 11. maí til loka maí árið 2010 eftir að slitastjórn Glitnis stefndi honum og sex öðrum stjórnendum og eigendum bankans.

Átján mánuðum eftir að hætt var að hlera síma Pálma fékk hann upplýsingar um hlerunina. Sigurður segir það fulllangan tíma, sérstaklega í ljósi þess að búið var að yfirheyra hann í millitíðinni og þá hafi hann aldrei verið ákærður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert