„Þetta eru ekki refsiaðgerðir“

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar. mbl.is/Ómar

„Því miður gerðist það sem við höfðum óttast og varað við undanfarna mánuði. Við sem störfum í íslenskum sjávarútvegi erum sorgmædd yfir hversu afvegaleidd umræðan hefur verið. Fullyrðingar um að þeir sem starfa í greininni sjái ekki lengra en tvo mánuði fram í tímann, þ.e.a.s. meðan svokölluð makrílvertíð stendur yfir, eru með ólíkindum.“

Þetta sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, á aðalfundi félagsins sem fram fór í gær. Vísaði hann þar til þeirrar stöðu sem upp er komin í viðskiptum Íslands og Rússlands vegna stuðnings íslenskra stjórnvalda við viðskiptabann gegn Rússum. Saga Síldarvinnslunnar og saga viðskipta við Rússland væri samofin. Innflutningsbann Rússa á sjávarafurðum til Rússlands væri því ákveðið áfall fyrir íslenskan sjávarútveg.

„Þvert á það sem ætla mætti af fjölmiðlaumfjöllun og yfirlýsingum ráðamanna þá snúast aðgerðir Evrópusambandsins ekki um refsingu. Þetta eru ekki refsiaðgerðir. Það kemur skýrt fram í tilkynningu Evrópusambandsins. Jafnframt kemur fram að þetta séu aðgerðir sem eiga ekki að hitta fyrir almenning, hvorki í Rússlandi né löndum Evrópusambandsins. Það kemur einnig skýrt fram. Í umræðunni er talað um viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi,“ sagði hann.

Geta keypt allt frá ESB nema hergögn

Þorsteinn benti á að Rússar gæti keypt hvaða vörur sem þeir vildu frá Evrópusambandinu fyrir utan hergögn. Þannig hefðu aðgerðir sambandsins hverfandi áhrif á fyrirtæki og einstaklinga í Rússlandi og Þýskalandi og vísaði í þýska utanríkisráðherrann í þeim efnum. Málið snerist ekki um það að vera þjóð meðal þjóða. Ekki síst í ljósi markmiða Evrópusambandsins. 

„Það hefur legið ljóst fyrir mánuðum saman hvaða áhrif þátttaka Íslands í banni á inn- og útflutningi hergagna hefði fyrir útflutning Íslands,“ sagði Þorsteinn ennfremur og velti upp þeirri spurningu hvort ekki hefði verið hægt að fá skilning meðal Evrópusambandsþjóða og Bandaríkjamanna fyrir því að Ísland væri á móti aðgerðum Rússa í Úkraínu án þess að landið þyrfti að vera formlegur aðili að aðgerðunum gegn Rússlandi þar sem Íslendingar framleiða hvorki hergögn né stunda viðskipti með þau.

„Gagnrýni sjávarútvegsins snýr að því að tíminn var ekki nýttur til að ígrunda hvað væri í húfi, hvaða þýðingu Rússlandsmarkaður hefur fyrir Ísland og bera saman hvað þýðingu það hefði fyrir Ísland að vera aðili að vopnasölubanni á Rússland miðað við aðrar þjóðir. Hefðu Íslendingar ekki getað komið sjónarmiðum sínumvarðandiaðgerðir Rússa í Úkraínu með öðru móti á framfæri án þess að skaða eigin hagsmuni eða fólks í Rússlandiþar sem ekki er um refsiaðgerð að ræða af hálfu Evrópusambandsins? “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert