Borgin sökuð um bruðl við skóflukaup

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tekur fyrstu skóflustungurnar ásamt nemendum Vesturbæjarskóla.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tekur fyrstu skóflustungurnar ásamt nemendum Vesturbæjarskóla. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Við hjá Múrbúðinni rákum augun í tíu þúsund krónu skóflur úr Húsasmiðjunni sem borgarstjóri og fleiri notuðu þegar skóflustunga var tekin að viðbyggingu Vesturbæjarskóla. Sambærilegar skóflur fást nefnilega í Múrbúðinni á 1.790 krónur.“

Þetta kemur fram á vef Múrbúðarinnar en atburðurinn sem vísað er til átti sér stað á þriðjudaginn þar sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, tók ásamt nemendum í Vesturbæjarskóla fyrstu skóflustungurnar að viðbyggingu við skólann sem stefnt er að verði tekin í notkun haustið 2017. Bent er á að sex skóflur hafi verið notaðar og kostaði hver og ein þeirra 9.879 krónur í Húsasmiðjunni.

„Það þýðir að borgarsjóður er rúmlega 48 þúsund krónum fátækari en vera þyrfti. Það munar um minna – þetta eru mánaðar útsvarstekjur af einum meðallaunum. Svo lítur út sem borgarstarfsmenn hafi keypt skóflurnar blindandi í Húsasmiðjunni, án þess að kanna verð annars staðar,“ segir ennfremur á vef Múrbúðarinnar. Bara hafi verið farið á sama staðinn vegna þess að þar væri þægilegt að versla og ekki þyrfti að borga úr eigin vasa.

„Okkur grunar að varla geti þetta verið eina tilvikið þar sem opinberir starfsmenn ganga hugsunarlaust í vasa skattgreiðenda – ekkert spáð í að spara, ekkert spáð í að gera verðsamanburð eða leita tilboða. Og í stað þess að stoppa bruðlið eru skattarnir bara hækkaðir. Ljóst er að það mætti byrja á að skera hressilega niður hjá skóflustungudeild Reykjavíkurborgar,“ segir að lokum.

Uppfært 13:55: Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg voru aðeins keyptar tvær skóflur vegna atburðarins en hinar fjórar voru þegar til hjá borginni. Þá voru skóflurnar ekki keyptar í Húsasmiðjunni heldur næstu byggingavöruverslun sem hafi verið BYKO úti á Granda. Þar með hefði sparast akstur auk þess sem borgin væri með afsláttarkjör hjá þeirri verslun. Borgin inni markvisst að því að góðu utanumhaldi innkaupa með rammasamningum og gegnsæum vinnureglum um innkaup. Þar með talin útboð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert