Barn með Downs fékk ekki að leika í IKEA

Móttökurnar sem Sigurbjörg Hjörleifsdóttir fékk þegar hún ætlaði að leyfa börnunum sínum að leika sér í barnalandi IKEA í Tyrklandi voru á þá leið að það væri ekki hægt þar sem sonur hennar er með Downs-heilkenni. Hún flutti nýlega til höfuðborgarinnar Ankara ásamt börnunum sínum þremur og eiginmanni sem spilar þar fótbolta.

IKEA verið griðastaður vegna tíðra flutninga

Í pistli á Facebooksíðu sinni segir hún að eftir þó nokkra flutninga gegnum tíðina hafi hún byrjað að upplifa IKEA sem einskonar griðastað þar sem allt sé eins og heimafyrir. Það hafi þó heldur betur breyst nýlega þegar þau héldu í ferð til að versla fyrir nýja heimilið.

Vildu ekki að Viktor fengi að fara í barnaland

Segist Sigurbjörg strax hafa upplifað að starfsfólkið í Småland (barnalandi IKEA) hafi ekki viljað aðstoða þau. Hún og Ólafur Ingi Skúlason, eiginmaður hennar, eiga þrjú börn saman og sá yngsti, Viktor, er með Downs-heilkenni.  Fyrsta svarið sem hún fékk var að elsta stelpan væri of stór fyrir barnalandið þar sem hún væri 8 ára, en gert væri ráð fyrir börnum á aldrinum 3-6 ára.

Sigurbjörg segir að næst hafi starfsfólkið sagt Viktor vera of lítinn, en hann var greinilega yfir þeim mörkum sem barnalandið setti. Þegar hún mótmælti því að hann væri of lítill til að fara og leika sér var kallað á starfsmann sem kunni betur til í ensku. Sá sagði að þar sem Viktor væri með „vandamál“ gæti hann aðeins verið í 30 mínútur í barnalandinu. Einnig sögðust þau hafa áhyggjur af því að önnur börn myndu meiða Viktor meðan hann væri þar. Sigurbjörg benti aftur á móti á að barnapían þeirra gæti verið á staðnum og haft auga með honum, en illa var tekið í þær hugmyndir.

Fundu nýjar ástæður til að banna honum að fara í barnalandið

Eftir talsverðar rökræður milli starfsfólksins var Sigurbjörgu aftur á móti tjáð að Viktor gæti ekki leikið sér í barnalandinu um helgar og væri því bannað að leika sér þennan dag. Segir Sigurbjörg í póstinum sínum að hún hafi verið farin að skjálfa af reiði á þessum tímapunkti, enda um beina mismunun að ræða og sagði hún starfsfólkinu að málið færi lengra áfram.

Segir hún að eftir þessa uppákomu hafi hún þurft að útskýra fyrir Viktori að hann ætti ekki leika sér þarna inni og fyrir hinum börnunum að þau gætu ekki leikið sér þarna vegna ákvörðunar starfsfólksins varðandi Viktor.

Bjóst við meiru frá stórri keðju eins og IKEA

Sigurbjörg segist hafa gert svo miklu meiri væntingar til stórrar alþjóðlegrar verslunarkeðju eins og IKEA en hún hafi upplifað þennan dag og vísaði í því samhengi til sögu frá Svíþjóð þar sem annað var uppi á teningnum. Þar hafi móðir skráð þrjú af börnunum sínum fjórum inn í barnalandið en ætlað að taka fjórða barnið, sem var með Downs-heilkenni, með sér í búðina. Starfsmaður barnalandsins hafi aftur á móti spurt hvort öll börnin ættu ekki að fá að leika sér og hann sæi enga ástæðu til annars. Þessi saga fór eins og hvirfilbylur um netið og segir Sigurbjörg að sögur sem þessi gefi fólki sem á börn með Downs-heilkenni von um að uppi séu nýir tímar þar sem staður sé fyrir öll börn, óháð því hvort það sé með ákveðin heilkenni eða ekki.

I am a mother of three children, I am from Iceland. Me and my family move a lot because of my husbands work and we have...

Posted by Sibba Hjörleifsdóttir on Saturday, 22 August 2015
Sonur Sigurbjargar fékk ekki að fara í barnaland IKEA í …
Sonur Sigurbjargar fékk ekki að fara í barnaland IKEA í Ankara í Tyrklandi þar sem hann er með Down-heilkenni. Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert