Ólafur samdi við Genclerbirligi

Ólafur Ingi Skúlason ásamt Emrah Atasoy, framkvæmdastjóra Glenclerbirligi.
Ólafur Ingi Skúlason ásamt Emrah Atasoy, framkvæmdastjóra Glenclerbirligi. Ljósmynd/Twitter

Ólafur Ingi Skúlason landsliðsmaður í knattspyrnu er genginn til liðs við  tyrkneska úrvalsdeildarliðið Genclerbirligi en hann hefur spilað með Zulte-Waregem í Belgíu undanfarin fjögur ár.

Umboðsskrifstofan Total Football tilkynnti þetta á Twitter rétt í þessu.

Genclerbirligi er frá höfuðborginni Ankara og hafnaði í níunda sæti úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Nýtt tímabil í Tyrklandi hefst 15. ágúst og Ólafur byrjar væntanlega á tveimur æfingaleikjum við hollensku liðin Den Haag og Twente sem fram fara á miðvikudag og laugardag.

Ólafur Ingi er 32 ára, uppalinn Fylkismaður, og hefur verið atvinnumaður frá 2001. Hann var fyrst í röðum Arsenal í fjögur ár en síðan hefur hann leikið með Brentford á Englandi, Helsingborg í Svíþjóð, SönderjyskE í Danmörku og nú síðast Zulte-Waregem.

Hann á að baki 25 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og spilaði síðast gegn Eistlandi í mars og þá lék Ólafur á sínum tíma 30 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Ólafur verður annar Íslendingurinn til að spila með Genclerbirligi en Atli Eðvaldsson, þáverandi landsliðsfyrirliði, lék með félaginu keppnistímabilið 1989-90.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert