Var illa að okkur vegið

Gunnar Magnús Jónsson er þjálfari Fylkis.
Gunnar Magnús Jónsson er þjálfari Fylkis. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Stelpurnar lögðu allt í verkefnið,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson í samtali við mbl.is eftir tap sinna kvenna í Fylki fyrir Breiðabliki, 2:0, í 5. umferð Bestu deildarinnar í Árbænum í kvöld.

Fylkir er í áttunda sæti með fimm stig, fjórum stigum frá fallsvæðinu.

„Ég er aldrei sáttur við tap en er afskaplega stoltur að stelpunum og frammistöðuna gegn þessu frábæra Blikaliði. 

Þær lögðu allt í verkefnið og fylgdu leikskipulaginu sem við lögðum upp með. Blikaliðinu tókst illa að fara í gegnum okkur sem er vel gert þar sem að stelpurnar hjá Breiðabliki eru frábærar. 

Við ætluðum að sækja hratt og verja markið. Það er annar hluti af leiknum og við gerum það vel. Þetta er leikur sem hefði getað farið öðruvísi. 

Við gerðum smá áherslubreytingar í hálfleik þar sem við þurftum að halda betur í boltann. Gera það á réttum stöðum og finna svæðin. 

Þær skora í lok fyrri hálfleiks eftir fyrirgjöf og síðan fá þær að okkar mati ódýrt víti. 

Við vorum ekki sátt og fannst vera illa að okkur vegið þar. Fyrst fengu Blikakonur horn sem þær áttu ekki að fá og síðan víti sem var mjög ódýrt. 

Það eru tilfinningar í þessu og auðvitað eru einhverjar áherslur og reglur en menn voru ekkert að halda áfram. 

Ég fékk gult spjald sem var aðvörun og síðan sagði liðsstjórinn minn eitt og fékk beint rautt. Mér finnst það undarlegt, en svona er það víst,“ sagði Gunnar við mbl.is. 

Komu frábærlega inn

Tinna Harðardóttir og Kayla Bruster þurftu að fara af velli vegna meiðsla snemma leiks. Klara Mist Karlsdóttir og Kolfinna Baldursdóttir komu inn og var Gunnar mjög svo ánægður með þær. 

Þá meiddist Helga Guðrún Kristinsdóttir í síðasta leik og verður sennilega frá í þrjár til fjórar vikur. 

„Þær voru báðar mjög tvísýnar fyrir leikinn. Kayla var tæp og gat ekki haldið leik áfram. Önnur meiðsli voru hins vegar að angra Tinnu, hún fékk eitthvað í hnéð. 

Við þurftum að gera tvær skiptingar í fyrri hálfleik og komu stelpurnar frábærlega inn og þær voru tilbúnar í þetta. 

Við missum Helgu Guðrúnu í síðasta leik og síðan þessar tvær í kvöld. 

Hún er að fara í aðgerð á morgun og við erum að gæla við þrjár til fjórar vikur, vonandi nær hún því.“

Hvernig lítur þú á fyrstu fimm leikina? 

„Við getum verið nokkuð sátt við byrjunina. Viljum alltaf fá stig úr leikjunum en ekki við miklu að kvarta. Eftir þessa frammistöðu gegn frábæru Blikaliði er bjart framundan hjá okkur,“ bætti Gunnar Magnús við i samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert