Gætum lagt okkar fram til geimkönnunar

Ítalski geimfarinn Samantha Cristoforetti er einn ungra evrópskra geimfara sem …
Ítalski geimfarinn Samantha Cristoforetti er einn ungra evrópskra geimfara sem hafa verið duglegir við að bera út hróður ESA á samfélagsmiðlum eins og Twitter. AFP

Ísland gæti lagt sitt af mörkum til evrópsku geimstofnunarinnar (ESA), til dæmis á sviði jarðfræði og loftslags- og umhverfisathugana, að sögn Marks McCaughrean, yfirmanns vísindarannsókna og geimkönnunar ESA. Með slíkri aðild gæti Ísland tekið þátt í leiðöngrum eins og Rosettu til halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko.

Tuttugu og tvö ríki eiga aðild að ESA, þar á meðal öll Norðurlöndin og smáríki eins og Eistland. McCaughrean, sem heldur erindi um Rosettuleiðangurinn á haustráðstefnu Advania í Hörpu 4. september, segir í samtali við mbl.is að markmið stofnunarinnar sé að takast á við verkefni sem eru stærri en svo að einstök ríki geti tekist á við þau ein síns liðs. Fyrir vikið geti öll löndin tekið þátt í stærstu og erfiðustu leiðöngrunum eins og Rosettu.

Öll stóru ríkin eigi aðild að ESA en einnig smá ríki sem hafi hvert um sig eitthvað sérstakt fram að færa. Fyrst og fremst segir McCaughrean það vitsmunalega getu og tækniþekkingu á sérstökum sviðum sem minni ríkin geti lagt til samstarfsins. Þannig gæti Ísland lagt sitt af mörkum.

Viðhorf minni ríkja oft jákvæðara en þeirra stærri

ESA virkar þannig að framlögum aðildarríkjanna er varið í nær sömu hlutföllum í löndunum sjálfum, að sögn McCaughrean. Ísland skorti geimferðaiðnað til að framleiða hluti fyrir geimför en það hafi aftur á móti sterkt menntakerfi og tækniþekkingu á ýmsum sviðum.

„Ísland þyrfti að finna sér sérsvið. Það væri líklega á sviði jarðvísinda og athugana á loftslagi og umhverfi sem Ísland gæti viljað leggja meira af mörkum því það stendur nokkuð sterkt þar,“ segir McCaughrean spurður að því hvort Ísland gæti átt erindi sem aðildarríki ESA.

Framlag Íslands til stofnunarinnar yrði ekki stórt þar sem þau eru miðuð við landsframleiðslu aðildarríkjanna en með því fengi landið aðgang að allri stofnuninni og þeim innblæstri sem verkefni hennar geta veitt á sviði vísindarannsókna. Oft sé viðhorf minni ríkja til ESA jákvæðara en þeirra stærri en þau síðarnefndu vilji oft frekar hampa sínum eigin geimstofnunum.

„Minni ríkin hafa ekki endilega eigin geimstofnanir og geta tekið meiri heiður af því sem ESA tekur sér fyrir hendur,“ segir hann.

Með bestu sjónaukana á jörðu niðri og hóp ungra geimfara

Rosetta er helsta rósin í hnappagati ESA en á næstu árum mun stofnunin halda könnun sólkerfisins áfram og senda geimför til Merkúríusar, Mars, Júpíters og þriggja ístungla hans. Þá á stofnunin hlut í James Webb-geimsjónaukanum sem taka á við af Hubble árið 2018.

McCaughrean segir Evrópu í sterkri stöðu á sviði geimrannsókna þessa stundina. Álfan státi af bestu sjónaukunum á jörðu niðri og því fái Evrópubúar aðgang að töluverðum tíma Hubble-geimsjónaukans.

„Rosetta hefur verið stór hluti af þessu en við höfum haft fjölda geimfara á Alþjóðlegu geimstöðinni undanfarið. Við erum með hóp ungra geimfara núna sem hafa farið þangað og ert góða hluti með samfélagsmiðla og tengst fólki þannig,“ segir McCaughrean um uppgang evrópsku geimstofnunarinnar undanfarið.

Þá nefnir hann að ESA standi einnig fyrir umfangsmiklum jarðrannsóknum þar sem meðal annars sé fylgst með auðlindum jarðar og loftslagsbreytingum.

„Það er mörgum mjög mikilvægt að horfa ekki bara út í geiminn heldur líka niður á plánetuna sem við búum á,“ segir hann.

Mark McCaughrean, yfirmaður vísindarannsóknar og geimkönnunar evrópsku geimstofnunarinnar ESA.
Mark McCaughrean, yfirmaður vísindarannsóknar og geimkönnunar evrópsku geimstofnunarinnar ESA. mynd/Mark McCaughrean
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert