Umboðsmaður harðorður í garð ESB

Umboðsmaður ESB segir framgöngu framkvæmdastjórnar sambandsins ekki til eftirbreytni.
Umboðsmaður ESB segir framgöngu framkvæmdastjórnar sambandsins ekki til eftirbreytni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Umboðsmaður Evrópusambandsins er afar harðorður í áliti sínu um riftun Evrópusambandsins á IPA-samningi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins í kjölfar þess að aðildarviðræðum Íslands við sambandið var frestað 2013. Umboðsmaðurinn fordæmir framgöngu framkvæmdastjórnar ESB í málinu, segir hana óásættanlega og vera til þess gerða að grafa undan orðspori sambandsins.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins gerði samning við Evrópusambandið um verkefnið „Þróun raunfærnismats til að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun“ í júní 2012, en samningurinn fól m.a. í sér mótframlag frá Fræðslusjóði.

Heildarkostnaður við verkefnið var áætlaður 2,5 milljónir evra og samið var um að Evrópusambandið myndi leggja til 75% fjármagnsins en Fræðslusjóður 25%. Í desember 2013 boðaði sambandið hins vegar uppsögn samningsins og 5. febrúar 2014 var honum sagt upp með tveggja mánaða fyrirvara.

Fræðslumiðstöðin vísaði ákvörðun Evrópusambandsins til umboðsmanns á þeirri forsendu að riftun samningsins hefði verið ólögmæt og að samningurinn væri óháður ákvörðunum íslenskra stjórnvalda um framgang aðildarviðræðna. Lagt hefði verið í umtalsverðan kostnað þar sem það hefði verið skilningur Fræðslumiðstöðvarinnar að samningurinn væri bindandi fyrir báða aðila. Þá hefði hún þegar gengist undir samfélagslega skuldbindingu á grundvelli samningsins og um hann ríktu ákveðnar væntingar í skólakerfinu og víðar.

Það var niðurstaða umboðsmanns að með samningnum hefði Evrópusambandið ekki aðeins tekið á sig lagalega skuldbindingu heldur siðferðilega og samfélagslega, sem hefði átt að koma í veg fyrir að framkvæmdastjórnin hegðaði sér eins og hún gerði. Það hefði verið ósanngjarnt, ef ekki hreint og beint ósæmlegt, að leggja byrðar óvissunar vegna aðildarferlisins á herðar Fræðslumiðstöðvarinnar, og ekki síður fjárhagslegan skaða vegna hinnar pólitísku stöðu.

Umboðsmaður mæltist til þess 5. nóvember 2014 að framkvæmdastjórnin uppfyllti skilyrði samningsins en því var hafnað. Hinn 15. júlí sl. var málinu lokað af hálfu umboðsmanns en með fyrrnefndri gagnrýni um óásættanleg vinnubrögð framkvæmdastjórnarinnar og tilmælum um að hún endurskoðaði framgöngu sína, þótt seint væri.

Munu sækja málið í Brussel

Ingibjörg E. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, segist vonast til þess að framkvæmdastjórnin sjái að sér og efni samninginn. Hún segir það þó allsendis óvíst með tilliti til viðbragða hennar fram til þessa.

„Við reiknum þá með að halda áfram með málið og fara með það fyrir dómstóla í Brussel,“ segir Ingibjörg, en Fræðslumiðstöðin hefur þegar sent niðurstöðu umboðsmanns til lögmanna sinna í borginni. Ingibjörg segir álit umboðsmanns gefa Fræðslumiðstöðinni fullt tilefni til að halda málinu til streitu.

Fjármununum frá Evrópusambandinu átti m.a. að verja í að fjölga greinum í raunfærnismati, en það felur í sér mat á reynslu sem fólk hefur aflað sér, til dæmis á vinnumarkaði. „Raunfærnismatið hefur reynst vera mjög öflug leið til að bæði stytta nám og hvetja til náms, því þegar fólk sem hefur verið í vinnu finnur að það hefur náð valdi á fjölmörgum þeirra námsþátta sem kennd eru í námi og fær þá metna, þá er það mikil hvatning til að halda áfram og ljúka,“ útskýrir Ingibjörg.

Hægt hefur á framvindu verkefnisins í kjölfar ákvörðunar Evrópusambandsins um að rifta samningnum en það hefur verið fjármagnað með framlagi Fræðslusjóðs. Eitt af því sem hefur unnist er að koma vefnum næstaskref.is í loftið, þótt vinna við hann hafi gengið hægar en vonir stóðu til.

Ingibjörg segir fulltrúa Evrópusambandsins ekki hafa sett sig í samband við Fræðslumiðstöðina, jafnvel þótt framkvæmdastjórnin hafi viðrað hugmyndir um endurgreiðslu hluta fjárframlags sambandsins á þeirri forsendu að miðstöðin hafi ekki gert fulla grein fyrir nýtingu þess.

„Þeir voru að pressa á okkur að skila lokaskýrslu um notkun fjármagns, því sem við vorum búin að fá, en við vildum ekki skila lokaskýrslu því við töldum að þá værum við að samþykkja riftunina,“ segir Ingibjörg. „Við skiluðum þeim öllum upplýsingum sem þeir báðu um, en ekki á því formi sem þeir báðu um og ekki undir nafninu lokaskýrsla.“

Ingibjörg segir að Fræðslumiðstöðin hafi verið viljug til þess að eiga viðræður við Evrópusambandið um ásættanlega niðurstöðu, en ekki á forsendum sambandsins sem hafi miðað að riftun.

Ingibjörg E. Guðmundsdóttir.
Ingibjörg E. Guðmundsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert