Frétt Daily Mail byggð á röngum gögnum

Kannabisplanta.
Kannabisplanta. AFP

mbl.is sagði í gær frá frétt Daily Mail þess efnis að Íslendingar væru sú þjóð sem væri duglegust við kannabisreykingar, en gögnin sem blaðamaður Daily Mail vísar til byggja á upplýsingum sem hafa aðeins verið uppfærðar að hluta og eru að auki rangar hvað varðar kannabisneyslu á Íslandi.

Í frétt Daily Mail er vísað til korta sem birt voru á RecoveryBrands.com, en þau byggja á gögnum frá fíkniefna- og afbrotaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNODC) fyrir árin 2003-2014.

Þrátt fyrir að Daily Mail fjalli um gögnin eins og um nýjar upplýsingar sé að ræða eru tölurnar fyrir Ísland frá 2012 og beinlínis rangar. mbl.is hefur áður fjallað um hvernig hlutfallið 18,3% rataði í gögn UNODC fyrir hlutfall einstaklinga í aldursflokknum 18-26 ára sem hefði notað kannabisefni árið 2012, en rétt hlutfall er nær því að vera 6,6%.

Nokkuð var gert úr þessum fregnum um mikla kannabisneyslu Íslendinga bæði heima og erlendis á sínum tíma en svo virðist sem gögn UNODC hafi ekki verið leiðrétt. Daily Mail vísar m.a. í eina erlenda frétt um málið frá 1. júlí 2014, þar sem því var ranglega haldið fram að Ólafur Ragnar Grímsson forseti væri fylgjandi afglæpavæðingu „mýkri“ fíkniefna.

Erfitt að vinda ofan af umfjölluninni

 „Það er því miður ekki búið að leiðrétta þetta,“ segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, um gagnagrunn UNODC. „Í upphafi var þetta nokkuð traust upplýsingaveita hvað varðar upplýsingarnar um Ísland; fyrirfram hefði maður talið að þetta ætti að vera nokkuð tryggt. En þetta er algjör mistúlkun á gögnum frá okkur,“ segir hann um 18,3% hlutfallstöluna.

Hann segir UNODC traustan aðila sem hafi séð mönnum fyrir samanburðargögnum sem þeir hafi notað og treyst. „Það er þess vegna sem þetta er að poppa upp aftur og aftur. Þetta er komið á netið og það er svo erfitt að vinda ofan af þessu,“ segir hann.

Helgi segir staðreynd málsins þá að Íslendingar séu langt í frá í fararbroddi þegar kemur að neyslu kannabisefna.

„Ég hef verið að mæla neyslu á kannabis á Íslandi í mörg ár, og sérstaklega meðal fullorðins fólks, og mínar niðurstöður sýna alltaf að neyslan er minni en gengur og gerist annars staðar. Og við höfum verið að gera mælingar meðal ungmenna, þ.e. 10. bekkjar-ESPAD mælingar sem eru alþjóðlegar; það er búið að vera að rannsaka þetta í rúm 20 ár og við erum alltaf með lægstu neyslu í löndum Vestur-Evrópu,“ segir Helgi.

Hann segir að meðal 10. bekkinga hafi meðaltal þeirra sem hafa notað kannabis verið í kringum 10%, en meðaltalið í Evrópu um 17%. Rannsóknir hans hafi sýnt að eftir tvítugt og þrítugt dragi hratt úr hlutfallinu.

Tilkynning frá Embætti landlæknis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert