Selja vændi í gegnum Tinder

Tinder smáforritið er afar vinsælt hjá einhleypum einstaklingum um þessar …
Tinder smáforritið er afar vinsælt hjá einhleypum einstaklingum um þessar mundir, en virðist einnig notað til að selja vændi.

„Það eru allar leiðir farnar svo hægt sé að selja vændi án þess að kaupandinn þurfi að stíga fram í dagsljósið,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, en allmörg dæmi eru um það að konur hér á landi noti samfélagsmiðla til að selja vændi. Hingað til hafa slík viðskipti aðallega farið fram í gegnum Facebook, en samkvæmt gögnum sem mbl.is hefur undir höndum er stefnumótaforritið Tinder nú einnig nýtt í þessum tilgangi.

Guðrún segir þetta ekki koma á óvart, þar sem netið sé mikið notað til að selja vændi. „Lykillinn að blómstrandi vændi er að kúnnarnir geti keypt það án þess að upp um þá komist, og það er ekki óeðlilegt að það gerist á Tinder og öðrum miðlum.“

Aðeins tekið á móti karlmönnum

Guðrún segir málið ekki hafa verið sérstaklega tekið upp sem þema á samstarfsfundum hjá Stígamótum, og ekki sé ljóst nákvæmlega hvaða miðlar eru notaðir í þessum tilgangi, enda sé nánast ómögulegt að vera með yfirsýn yfir vændiskaup- og sölu.

„Einkamál.is hefur lengi verið virkt í vændissölu og svo mál líka benda á að auglýsingar um vændi eru algengar í Fréttablaðinu. Það er mjög stutt síðan ég sá slíka auglýsingu síðast og hringdi í númerið sem var gefið upp og þá kom í ljós að það væri aðeins tekið á móti karlmönnum og þeir fengju bara að vita hvar þjónustan væri veitt hálftíma áður en þær ættu að mæta,“ segir Guðrún. „Eitt afbrigði er líka að konurnar svara ekki símanum og senda svo skilaboð þar sem mennirnir eru spurðir hvort þeir vilji hitta þær. Þetta gerist mjög víða.“

Þjónustar 10 karlmenn á dag í gegnum forritið

Tind­er er snjallsíma­for­rit sem geng­ur út á það að segja nei eða já við mynd­um af fólki í þeirri von að fá já til baka. Aðeins er hægt er að spjalla ef báðir aðilar hafa valið já. For­ritið seg­ir not­end­um einnig hversu langt aðil­inn er frá þeim og hef­ur hingað til aðeins gefið upp fólk sem er í 60 kíló­metra radíus þá. Stefnu­móta­for­ritið er mjög vin­sælt víða um heim en allra mest notað í Bretlandi. Fjöldi Íslend­inga not­ar for­ritið, og er það afar vin­sælt meðal ein­hleypra hér á landi.

Víðar virðist stefnumótaforritið notað til að selja vændi en á Íslandi, en vændiskona í London sagði í samtali við tímaritið The Sun að hún hafi þénað tíu þúsund pund eða rúmlega tvær milljónir króna á fimm mánuðum þegar hún notaði Tinder.

„Karlmenn munu alltaf borga fyrir kynlíf. Allir mennirnir sem ég hef hitt á Tinder vilja aðeins hittast fyrir kynlíf, en ekki stefnumót,“ sagði hin 22 ára gamla Lilly Chatte. Hún sagði að þegar mikið væri að gera gæti hún þjónustað tíu karlmenn á dag í gegnum forritið, sem væri mun meira en í gegnum aðrar einkamálasíður.

Sjá einnig: Selja vændi í gegnum Facebook

Eins og mbl.is greindi frá fyrr á árinu má finna lokaða hópa á Facebook þar sem kynlíf er boðið gegn gjaldi. Á annað þúsund manns voru meðlimir í tveimur slíkum hópum, en gera má ráð fyrir að þeir séu fleiri.

Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is er lög­regl­an meðvituð um ólög­leg viðskipti á samfélagsmiðlum og eru slík mál sí­fellt í skoðun hjá embætt­inu. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá lög­reglu er óvíst hvert um­fang vænd­is­sölu á slíkum miðlum er.

Átján í viðtölum vegna vændis

Árið 2014 leituðu 8 ein­stak­ling­ar, þar af einn karl og sjö kon­ur, til Stíga­móta í fyrsta skipti vegna vænd­is. Vitað er að árið 2014 voru einnig í viðtöl­um meðal ann­ars vegna vænd­is um 10 ein­stak­ling­ar, þar af níu kon­ur og einn karl, sem leituðu í fyrsta skipti til Stíga­móta fyr­ir árið 2014.

Samkvæmt upplýsingum frá Stígamótum ber þó að hafa í huga við túlkun þessara niðurstaðna að vændi er oft á tíðum falið vandamál og kemur ekki til tals fyrr en eftir margra mánaða viðtöl. Skráningar fara hins vegar fram eftir fyrstu viðtöl og upplýsingarnar vantar því í einhverjum tilfellum.

„Við rekum sjálfshjálparhópa fyrir konur sem hafa verið í vændi. Það kemur alltaf einn og einn karl en það ætti ekki að koma neinum á óvart að það eru fyrst og fremst konur sem koma,“ segir Guðrún og heldur áfram. „Afleiðingar vændis eru geta verið alvarlegar. Öðruvísi leggja þær ekki á sig að koma hingað í viðtöl ár eftir ár og taka þátt í krefjandi sjálfshjálparhópum svo það segir sig sjálft.“

„Lögreglan á að sinna öllum lögbrotum“

Eins og sum­um er í fersku minni gerðist það árið 2011 að 85 kon­ur tóku sig sam­an um að kanna vænd­is­markaðinn og safna sam­an nöfn­um vændis­kaup­enda. Verkefnið kallaðist Stóra systir en konurnar af­hentu lög­regl­unni 56 nöfn vændis­kaup­enda, 117 farsíma­núm­er og 26 net­föng eft­ir að hafa kannað einka­mála­geir­ann.  

„Stóra systir benti á hversu auðvelt er að finna þá sem kaupa vændi með því að taka þátt í leiknum,“ segir Guðrún, en bendir á að peningar sem lögregla fékk til að rannsaka vændi hafi klárast og ekki hefði verið farið af stað með annað átak af þessu tagi síðan. „Það er pínu einkennilegt því lögreglan á jú að sinna öllum lögbrotum.“

Þá opnuðu Stígamót sinn eigin kampavínsklúbb árið 2013 og í kjölfarið var tveimur kampavínsklúbbum í Reykjavík lokað og menn settir í gæsluvarðhald fyrir að hafa haft milligöngu um að selja og kaupa vændi.

Aðspurð um það hvort hún telji að vændi hafi aukist hér á landi segist Guðrún ekki geta svarað. „Það getur enginn svarað þessari spurningu. Það er ekki hægt að hafa yfirsýn yfir þetta. Það eru ýmsar leiðir farnar en það er engin leið að segja til um umfangið.“

Frétt mbl.is: Selja vændi í gegnum Facebook

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Árni Sæberg
Samskiptamiðlar eru mikið notaðir til að selja og kaupa vændi.
Samskiptamiðlar eru mikið notaðir til að selja og kaupa vændi. mbl.is/Ernir
Guðrún segir allar leiðir vera farnar svo hægt sé að …
Guðrún segir allar leiðir vera farnar svo hægt sé að selja vændi án þess að kaupandinn þurfi að stíga fram í dagsljósið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert