Styttist í boðað verkfall VM

Guðmundur Ragnarsson formaður VM
Guðmundur Ragnarsson formaður VM

Fjórði samningafundur Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) og Samtaka atvinnulífsins vegna almenns kjarasamnings var haldinn i Karphúsinu í gær, miðvikudag. Guðmundur Ragnarsson formaður VM segir á vef VM jákvætt að atvinnurekendur úr greininni hafi setið fundinn í gær, sem liðki vonandi fyrir gerð nýs samnings.

„Það varð engin niðurstaða á fundinum í gær. Krafa okkar er skýr, við viljum fá fasta upphafsprósentu á öll laun. Vinnuveitendur verða að átta sig á því að félagsmenn í VM höfnuðu launaþróunartryggingunni í atkvæðagreiðslu, auk þess sem mikil óánægja er með kjörin í vél- og málmtæknigreinum. Og svo má ekki gleyma því að vopnahléssamningurinn með 2,8% launahækkun til eins árs var felldur fyrir einu og hálfu ári síðan,“ segir í viðtali við Guðmund á vef VM.

Næsti fundur hefur verið boðaður mánudaginn 31. ágúst og segist Guðmundur binda vonir við að á þeim fundi verði reynt til þrautar að ganga frá nýjum kjarasamningi.

„Það styttist í boðaða vinnustöðvun 1.800 félagsmanna VM, sem að óbreyttu hefst á miðnætti 5. september, hafi samningar ekki tekist. Ég trúi ekki öðru en að vinnuveitendum sé þetta ljóst, þannig að það er eins gott að hreyfing komist á viðræðurnar,“ segir ennfremur á vef VM.

Guðmundur segir að staðan í viðræðum við Rio Tinto Alcan í Straumsvík sé alvarleg, fyrirtækið virðist ekkert vilja gera til að höggva á þann hnút sem upp er kominn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert