Hefur fengið hæli í öðru ríki

Lögreglan og slökkvilið á staðnum í dag.
Lögreglan og slökkvilið á staðnum í dag. mbl.is/Júlíus

Hælisleitandinn sem hellti yfir sig eldfimum vökva sér fyrir utan skrifstofu Rauða krossins í dag hefur fengið hæli og viðurkennda stöðu flóttamanns  í öðru Evrópuríki en kom hingað til lands og sótti um hæli í mars 2015. Mál hans hefur tafist hér á landi vegna bágs andlegs ástands hans. Þetta kemur fram á vef Útlendingastofnunar.

„Vegna fregna af hælisleitanda sem hótaði að kveikja í sjálfum sér fyrir utan höfuðstöðvar Rauða kross Íslands fyrr í dag vill Útlendingastofnun koma eftirfarandi á framfæri.

Maðurinn hefur fengið veitt hæli og viðurkennda stöðu flóttamanns í öðru Evrópuríki en kom hingað til lands og sótti um hæli í mars 2015. Rauði kross Íslands hefur sinnt hagsmunagæslu fyrir manninn. Málið hefur tafist nokkuð umfram 90 daga viðmiðunartíma málsmeðferðar í hælismálum hjá stofnuninni vegna bágs andlegs ástands mannsins og erfiðleika tengdum því.

Framganga sem þessi og önnur sjálfskaðandi hegðun hefur ekki áhrif á framgang eða úrlausn mála. Málið er því í hefðbundnum farvegi og mun Útlendingastofnun kappkosta að ljúka því sem fyrst, rétt eins og öðrum málum.

Þegar hælisleitendur hóta að skaða sjálfa sig eða sýna af sér sjálfskaðandi hegðun leggur Útlendingastofnun áherslu á að tryggja þeim viðeigandi aðstoð og ráðgjöf með aðkomu félagsþjónustunnar, Rauða kross Íslands, sálfræðinga, lækna og eftir atvikum talsmanns viðkomandi. Allt kapp er lagt á að veita aðstoð og liðsinni í samræmi við óskir og þarfir viðkomandi,“ segir á vef Útlendingastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert