Allir vinir á Akureyrarvöku

Jónas Sig og Samúel J. Samúelsson í góðum gír.
Jónas Sig og Samúel J. Samúelsson í góðum gír. Ljósmynd/Ragnar Hólm

Akureyrarvaka er haldin um helgina, dagana 28. - 30. ágúst. Venju samkvæmt var hátíðin sett í Lystigarðinum og þemað í ár var dóttir-mamma-amma og áhersla lögð á að fá íbúa til að taka þátt og njóta. Hulda Sif Hermannsdóttir, viðburða- og menningarstjóri Akureyrarstofu, var afar ánægð með hvernig til tókst um helgina.

„Þetta gekk eins og í sögu. Við byrjuðum í Lystigarðinum á föstudag og síðan rúlluðu atburðirnir áfram hver af öðrum. Til að mynda opnuðu sýningar út um allan bæ, hér voru haldnir tónleikar og fleira skemmtilegt,“ segir Hulda við mbl.is.

„Það var mjög mikið af skemmtilegum hlutum sem tengdust þemanu, dóttir-mamma-amma, og það voru margir sem vildu tengja sig við það.“

Hátíðin fór afar vel fram og fólk virðist hafa skemmt sér vel og af miklum vinskap. Enginn gisti fangageymslu lögreglunnar á Akureyri í nótt.

Hulda segir að hefð sé fyrir stórtónleikum í Gilinu á laugardagskvöldi vökunnar. „Það voru stórtónleikar með góðum listamönnum og síðan enduðum við á friðarvökunni í kirkjutröppunum.“ Þá er kveikt á kertum til friðar í heiminum og eru kertin látin loga í hinum mörgu tröppum Akureyrarkirkju. Það þykir afar falleg stund og margir segja að sú stund slái bestu flugeldasýningum út.

Friðarkertin í tröppum Akureyrarkirkju.
Friðarkertin í tröppum Akureyrarkirkju. Ljósmynd/Ragnar Hólm
Boðið var upp á fjölda viðburða.
Boðið var upp á fjölda viðburða. Ljósmynd/Ragnar Hólm
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert