Óvissa um mönnun röntgendeildar bitnar á sjúklingum

mbl.is/ÞÖK

Yfirlæknir og deildarstjóri á röntgendeild Landspítalans segja óljóst hvenær fullum afköstum verði náð aftur á röntgendeild. Allnokkur hluti geislafræðinga á sjúkrahúsinu hefur látið af störfum og bitnar núverandi ástand á sjúklingum. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Jón Guðmundsson yfirlækni og Díönu Óskarsdóttur deildarstjóri, sem birt er á heimasíðu Landspítalans.

„Eins og flestum er kunnugt hefur allnokkur hluti geislafræðinga á sjúkrahúsinu látið af störfum. Því miður er enn nokkur óvissa um mönnun röntgendeildar á næstunni.

Við höfum því þurft að skerða þjónustu að einhverju leyti, sér í lagi hvað varðar þá sem ekki eru bráðveikir og bið eftir rannsóknum sjúklinga sem eru utan spítalans hefur lengst,“ segja þau.

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta ástand bitnar á skjólstæðingum okkar og vinnum því ötullega að ráðstöfunum til þess að gera bragarbót á því. Óljóst er hvenær fullum afköstum verður náð aftur,“ segir ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert