„Grikkland ekki talið öruggt land“

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Flóttafólk er ekki sent aftur til þeirra landa sem teljast óöruggt land fyrir það. Þetta á meðal annars við um Grikkland, Ítalíu og Ungverjaland. Þá verður fylgst nánar með þróun mála í Króatíu. Þetta sagði Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hún bætti við að straumur flóttamanna væri í raun þjóðflutningar.

Á að taka Dyflinnarreglugerðina tímabundið úr sambandi?

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að nýlega hefði sýrlenskur flóttamaður verið sendur úr landi með vísun í Dyflinnarreglugerðina. Sagði hún að reglugerðin væri heimild til að senda fólk til baka, en ekki skylda. Spurði hún Ólöfu hvort hún myndi senda tilmæli til Útlendingastofnunar um að hætta að senda flóttafólk frá Sýrlandi til baka með vísun í reglugerðina.

Ólöf sagði að reglugerðin væri ein sú mikilvægasta fyrir Schengen samstarfið. Taldi hún ekki rétt á þessum tímapunkti að taka hana úr sambandi. Sagði hún að ef lönd færu að hætta að horfa til Dyflinnarreglugerðarinnar þá komi upp spurningin hvort að Schengen samstarfið virki eða ekki. Hún tók þó fram að ákveðið hefði verið að senda flóttafólk ekki til baka til ákveðinna landa þar sem ekki væri talið að aðbúnaður þeirra væri nægjanlegur og öryggi þeirra tryggt.  „Grikkland ekki talið öruggt land. Sama á við um Ítalíu og Ungverjaland,“ sagði Ólöf og bætti við að fylgst væri með Króatíu.

Ekki bara flóttamenn heldur þjóðflutningar

Steinunn sagði leitt að heyra að reglugerðin yrði ekki tekin úr sambandi við þessar aðstæður. Sagðist skilja að halda þyrfti utan um skráningu á ytri landamærum, en að mikilvægara væri að veita fólki skjól sem flýr úr erfiðum aðstæðum en að huga að skriffinnsku.

Ólöf bætti við í seinna svari sínu að nú væri mikilvægt að öll skráning haldi og sagði að í raun væri þetta ekki bara flóttamenn heldur þjóðflutningar milli svæða. „Það reynir á öll regluverk,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert