Hvaða vörur lækka í verði?

Með samningnum er tollkvóti fyrir innflutta osta aukinn úr 100 …
Með samningnum er tollkvóti fyrir innflutta osta aukinn úr 100 tonnum á ári í 610 tonn. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Með samningi Íslands við Evrópusambandið, sem undirritaður var á fimmtudaginn, munu meðal annars falla niður tollar á pasta, pítsur, allskonar matvörur sem innihalda súkkulaði, súpur og kornmeti. Þá fellur niður tollur á villibráð, svo sem hreindýrakjöt og rjúpur, sem og tollur á nokkra flokka af útiræktuðu grænmeti. Einnig munu tollar lækka umtalsvert á nokkrum vöruflokkum eins og rjómaís og frönskum kartöflum.

Samningurinn nær einnig yfir stækkun tollkvóta á smjör, osta, nautakjöt, skyr, alífuglakjöt, lambakjöt og svínakjöt, en mismunandi er hvort og hversu mikið hver flokkur stækkar eftir því hvort um er að ræða út- eða innflutning. Stækka kvótarnir á hverju ári næstu fjögur árin og verða komnir í fulla stærð árið 2020.

Mynd/mbl.is

Stærstu breytingarnar eru þær að tollkvóti á íslenskt lambakjöt sem selt er í Evrópusambandinu er aukinn úr 1.850 tonnum í 3.050 tonn. Þá er bætt við nýjum tollkvóta fyrir unnar lambakjötsvörur og verður hann 300 tonn. Þá verður kvóti fyrir skyr stórlega aukinn úr 380 tonnum í dag upp í 4.000 tonn eftir fjögur ár. Þá er opnað fyrir kvóta á ost upp á 50 tonn, alífugl upp á 300 tonn og svínakjöt upp á 500 tonn. Smjörkvótinn er einnig stækkaður úr 350 tonnum í dag upp í 500 tonn eftir fjögur ár.

Í innflutningi verða innflutningskvótar stórlega auknir í flestum flokkum. Nautakjötskvótinn fer úr 100 tonnum upp í 696 tonn, svínakjötskvótinn fer úr 200 í 700 tonn og alífuglakjötskvótinn fer úr 200 í 856 tonn. Þá verður sérstakur kvóti fyrir lífrænan alífugl sem ekki hefur verið hingað til, en sá kvóti verður upp á 200 tonn. Innflutningskvóti fyrir osta verður stækkaður úr 80 tonnum í 380 tonn og með sérosta úr 20 tonnum í 230 tonn.

Til viðbótar við lækkun og niðurfellingu tolla verður innflutningstollkvóti á …
Til viðbótar við lækkun og niðurfellingu tolla verður innflutningstollkvóti á ákveðnar vörur aukinn bæði á Íslandi og í ESB. Mynd/mbl.is

Ljóst er að þetta getur haft mikil áhrif á vöruframboð, verð og framleiðslu hér á landi, en til að setja þessar stærðir í samhengi nemur nýr innflutningskvóti fyrir nautakjöt um 25-30% af innlendri framleiðslu og ostakvótinn er um 10% af innlenda markaðinum.

Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi Kúabænda nemur 696 tonna nautakjötskvóti um 1.150 tonnum af nautaskrokkum, en innanlandsframleiðsla hér á landi hefur undanfarið verið um 3.500 tonn. Þá hefur sala á innlendum ostum hér á landi síðustu 12 mánuði verið 6.000 tonn, en kvóti fyrir osta og sérosta verður samtals 610 tonn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert