Sigldu enn og aftur í strand

Samninganefnd starfsmanna hefur metið það svo að allt að 100 …
Samninganefnd starfsmanna hefur metið það svo að allt að 100 störf geti verið tekin frá starfsmönnum og sett í verktöku með breyttum kjarasamningum. Ljósmynd/Alcan

Viðræður um kjarasamninga starfsmanna álversins í Straumsvík hafa siglt í strand enn á ný. Þetta segir Gylfi Ingvarsson, talsmaður samninganefndar starfsmanna, í samtali við mbl.is. 

„Við erum búin að ná saman um eiginlega alla launaliði. Út af borðinu stendur hins vegar forgangskrafa fyrirtækisins um að það verði gerðar breytingar á forgangi til starfa og aukinni verktöku,“ segir Gylfi, en samninganefnd starfsmanna hefur metið það svo að allt að 100 störf geti verið tekin frá starfsmönnum og sett í verktöku með þessum hætti.

„Þar með strandaði þetta. Á föstudaginn vorum við búin að ákveða fundahlé til hálffjögur síðdegis. Svo kom það í ljós að viðsemjendur okkar þurftu að fá svör við þessari kröfu. Við sögðum þá að við værum búin að leggja fram tillögu til lausnar hinn 4. ágúst síðastliðinn og að það væri það eina sem við sættum okkur við. Þegar þeir fengu þau svör þá var fundurinn blásinn af,“ segir Gylfi og bætir við að ekki hafi enn verið boðað til nýs fundar.

ISAL hefur fullyrt að fyrirtækið hafi boðið starfsmönnum meira en 21,7% hækkun launa fram til ársins 2019. Gylfi segir að samningsaðilar hafi náð þeirri niðurstöðu saman með því að nálgast hvorir aðra í þrepum.

„Enginn ágreiningur er um þann hluta samninganna. En um leið og þetta strandaði á verktakakröfunni þá fór þetta auðvitað allt í uppnám.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert