Stoppuðu hvalveiðibát með farþega

Gæslan stoppaði hrefnuveiðibátinn tvisvar í síðustu viku þar sem farþegar …
Gæslan stoppaði hrefnuveiðibátinn tvisvar í síðustu viku þar sem farþegar voru um borð. mbl.is/Jim Smart

Landhelgisgæslan stoppaði sama hvalveiðibátinn tvisvar í síðustu viku og fór í eftirlitsferð um borð. Meðal annars voru kannaðar grunsemdir um að farþegar væru um borð án tilskilinna leyfa. Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs gæslunnar, staðfesti við mbl.is að hrefnuveiðibáturinn hafi verið stöðvaður tvisvar í síðustu viku við Suðvesturland. Í annað skiptið fóru skipverjar á varðskipi um borð, en í seinna skiptið voru það áhafnarmeðlimir úr einni þyrlu gæslunnar sem fóru í eftirlitsferðina.

Ásgrímur segir ljóst að farþegar hafi verið um borð umfram skráða starfsmenn en vildi ekki staðfesta að um ólöglega háttsemi væri að ræða. Sagði hann málið í skoðun, meðal annars með Samgöngustofu og fleiri stofnunum.

Þegar starfsmenn gæslunnar fara um borð í skip gera þeir almennt öryggiseftirlit og athuga með hluti eins og haffærni og lögskráningu, að sögn Ásgríms. Segir hann að í lögskráningunni komi meðal annars fram fjöldi mannskaps á viðkomandi skipi og eru meðal annars réttindi skipverja skoðuð í samræmi við skráninguna.

Hann segir að hægt sé að skrá farþega um borð í skip, en til þess þurfi að vera trygging, svokölluð áhafnatrygging. Þessi hluti sé nú til skoðunar hjá gæslunni vegna þessa máls. Ásgrímur vildi ekki svara hvort um væri að ræða innlenda farþega eða erlenda ferðamenn sem hefðu verið um borð í skipinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert