Hefur ekki séð dóttur sína í tvö ár

Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir leikkona hefur ekki séð líffræðilega dóttur sína …
Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir leikkona hefur ekki séð líffræðilega dóttur sína í rúm tvö ár. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Staðgöngumæðrun var til umfjöllunar í Kastljósi kvöldsins, en þar sagði Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir leikkona frá reynslu sinni af því að ganga með barn fyrir frænda sinn og eiginmann hans. Guðlaug stóð í þeirri trú að hún yrði hluti af lífi barnsins, en hefur ekki séð stúlkuna í rúm tvö ár.

Að sögn Guðlaugar hugsaði hún sig vel um áður en hún tók ákvörðun um að ganga með barn fyrir aðra, en þegar bónin var borin fram var hún á góðum stað í lífinu og átti fyrir stálpaðan son. Hana langaði ekki í annað barn, en lagði þann skilning í málið að hún myndi eiga mikil og jafnvel innileg samskipti við barnið, enda höfðu samskipti hennar og tilvonandi feðra verið mikil og góð.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir með aðstoð læknavísindanna kom allt fyrir ekki, en Guðlaug varð hins vegar ólétt eftir skyndikynni með vini sínum. Ákvörðun var tekin um að láta sem tæknifrjóvgun hefði tekist, en líffræðilegum föður tilkynnt að hann myndi ekki eiga aðkomu að málum. Þegar barnið fæddist var það rangfeðrað og frændi Guðlaugar ættleiddi stúlkuna.

Að sögn Guðlaugar var gleðin svo mikil að hún telur að það hafi ekki hvarflað að neinum að vegferðin yrði erfið á einhverjum tímapunkti.

Guðlaug dvaldi á heimili frænda síns og eiginmanns hans til að byrja með og hafði barnið á brjósti. Seinna flutti hún heim en kom á heimili þeirra til að gefa barninu. Hún segir að allt hafi breyst þegar hún fór þess á leit að fá að hafa barnið aðra hverja helgi „til að milda höggið“. Á endanum var lokað á öll samskipti.

Leikkonan freistaði þess að fá ættleiðingunni hnekkt en tapaði málinu fyrir dómi. Þá reyndi líffræðilegur faðir barnsins að aðstoða hana og fór fram á erfðapróf en var synjað. Í dag telur Guðlaug að aðilar hafi lagt ólíkan skilning í málið; frændi hennar og eiginmaður hafi verið að fá sér staðgöngumóðir, en hún hafi ætlað að eignast barn með þeim.

Í viðtalinu við Kastljós hvatti Guðlaug konur til að hugsa sig tvisvar um áður en þær gerðust staðgöngumæður; það er kona sem gengur með barnið og svo missir hún það, sagði hún. „Þetta er í rauninni bara svona einfalt“. Hún segir skelfilegan harm að geta ekki átt börn, en að ganga með og ala barn og hafa það svo ekki hjá sér, sé ekki síður erfitt.

Viðtalið í heild er að finna á vef RÚV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert