Varð fyrir bíl á leiðinni heim

Frístundaheimilið Glaðheimar er ætlað grunnskólanemum Langholtsskóla í fyrsta og öðrum …
Frístundaheimilið Glaðheimar er ætlað grunnskólanemum Langholtsskóla í fyrsta og öðrum bekk. mbl.is/Golli

„Nýverið varð barn fyrir bíl á leið sinni heim úr frístundaheimilinu á gatnamótum Holtavegar og Langholtsvegar,“ segir í bréfi fulltrúa foreldra í skólaráði Langholtsskóla til Skúla Helgasonar, formanns skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, þar sem farið er fram á að Reykjavíkurborg finni frístundaheimilinu Glaðheimum, sem ætlað er yngstu nemendum skólans, betri og barnvænni staðsetningu sem allra fyrst.

Foreldrar barna í fyrsta og öðrum bekk Langholtsskóla hafa farið af stað með undirskriftasöfnun vegna staðsetningarinnar, en frístundaheimilið Glaðheimar er staðsett á horni Sæbrautar og Holtavegar í hinu svonefnda gamla Þróttaraheimili.

„Var að gera allt rétt“

Anna Kristín Guðmundsdóttir, foreldri stúlku í öðrum bekk Langholtsskóla, segir að börnin þurfi að ganga yfir fimm götur á leið sinni frá Langholtsskóla að frístundaheimilinu og var dóttir hennar að ganga heim frá frístundaheimilinu þegar hún varð fyrir bíl.

„Þetta var í fyrsta skipti sem hún fékk að fara ein heim,“ segir Anna.

„Hún var að gera allt rétt, labbaði leiðina sem henni var sagt að gera, upp Holtaveginn. Hún er að fara yfir gatnamótin á grænu ljósi á gangbraut þegar ökumaður er að taka hægri beygju og sér hana ekki, eins og getur alltaf gerst,“ segir Anna en dóttir hennar slapp með minniháttar meiðsli.

Þolinmæðin þrotin eftir tíu ára bið

Fyrir 10 árum byrjaði eldri dóttir Önnu í Langholtsskóla var starfsemi frístundaheimilisins færð úr kjallara Langholtsskóla í núverandi staðsetningu. Anna segir að þá hafi foreldrum verið tilkynnt um að staðsetningin í gamla Þróttaraheimilinu væri aðeins hugsuð sem tímabundin lausn.

„Nú er þolinmæði okkar algjörlega þrotin. Þessi staðsetning sem Reykjavíkurborg býður yngstu börnunum í Langholtsskóla uppá er hreint til skammar. Umferðarþunginn hefur aukist gríðarlega á götum sem börnin þurfa að ganga eftir og yfir á leiðinni til og frá frístundaheimilinu,“ segir Anna og bætir við að þrátt fyrir að vera innan um miklar umferðargötur sé svæðið í kringum frístundaheimilið ekki afgirt.

„Maður veltir því fyrir sér hvort þetta svæði hafi gleymst í borgarskipulaginu. Orðið einhver afgangsstærð,“ segir Anna. Hún telur að lóðin sem frístundaheimilið stendur nú á gæti nýst vel, t..d. undir íbúðarhúsnæði.

Horfir til mannvirkja í Laugardalnum

Aðspurð um hvernig hægt sé að leysa þetta vandamál, svarar Anna því til að glórulaust sé að leiða hóp af fimm til sjö ára gömlum börnum á hverjum virkum degi til dagvistunar frá grænu og barnvænu umhverfi yfir fimm gatnamót að einni helstu umferðaræð borgarinnar. Rennir hún því hýru auga til Laugardalsins.

„Það er löngu tímabært að börnin fái að dvelja á öruggari stað nær Laugardalnum þar sem hægt er að nýta dalinn og skólalóðina í frístundastarfinu,“ segir Anna.

Leggur hún til að nýtt verði þau mannvirki sem fyrir eru í Laugardalnum, t.d. Langholtsskóla, Laugaból sem er félagshús Þróttar eða byggingar í eigu borgarinnar í kringum Grasagarðinn. Þá sé einnig hægt að byggja nýtt húsnæði á lóð milli Langholtsskóla og gömlu skólagarðanna án þess að gengið sé of nærri Laugardalnum sem grænu svæði.

Undirskriftarsöfnunina má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert