115 karlar og ein kona

Frá Reykjavik Open skákmótinu sem fram fór í Hörpu í …
Frá Reykjavik Open skákmótinu sem fram fór í Hörpu í mars síðastliðnum. Árni Sæberg

Hjörvar Steinn Grétarsson, yngsti stórmeistari Íslendinga í skák, hefur vakið máls á kynjahalla í efstu deild Íslandsmóts skákfélaga, en fyrri hluti mótsins fór fram um helgina. Af rúmlega 115 keppendum var aðeins ein kona. 

Hjörvar skrifaði færslu á Facebook-hóp íslenskra skákmóta þar sem hann deildi áhyggjum sínum.

„...Þegar ég leit yfir úrslit mótsins þá tók ég eftir því að það var ein skákkona sem tefldi í 1.deild í fyrri hlutanum!? Það tók mig smá tíma að meðtaka þetta og að átta mig á því að af þessum 115+ skákmönnum sem tóku þátt þá væri ein kona, hún Lenka," skrifar hann og vísar þar til stórmeistarans Lenku Ptácníkovu.

Byggir ekki á líkamlegu atgervi

Í samtali við mbl.is segir Hjörvar að vænlegt væri að skylda lið í 1. deild til að hafa að minnsta kosti eina konu í sínum röðum.

„Það virðist vera sem áhugi kvenna sé ekki nógu mikill til að þær haldi áfram og nái þeim styrkleika sem þarf til að tefla í efstu deild. Þetta hefur verið mér hugleikið því ég kenni jafnt stelpum sem strákum. Þá hefur mér alltaf þótt þetta frekar skrýtið því þetta er íþrótt sem byggir ekki á líkamlegu atgervi og þannig ekki hægt að færa nein rök fyrir því að stelpur ættu að vera eitthvað verri.“

Hann tekur fram að sjálfur hafi hann teflt í bresku deildakeppninni þar sem lið eru einmitt skylduð til að tefla fram að minnsta kosti einni konu. Þar ríki í raun meiri samkeppni um færar skákkonur en -karla.

„Sem íslenskur stórmeistari er ég fenginn til að tefla fyrir lið þarna úti og í þeirra reglugerðum segir að lið þurfi að hafa eina konu. Eins og staðan er í dag þá eru skákkonur almennt verri en karlar, hvernig sem stendur á því. Ef þú ert með mjög sterka skákkonu þá stendur liðið því auðvitað betur að vígi. Sem dæmi er ég í kringum 400. sæti á heimslistanum en ég væri í kringum 6. sæti ef ég væri kona.“

Markaður myndist fyrir konur

Hér á landi mega lið aðeins tefla fram tveimur útlenskum skákmönnum. Áður fyrr voru þeir fjórir að sögn Hjörvars. „Í kjölfarið hefur myndast stærri markaður fyrir íslenska skákmenn og við fáum hærra borgað frá félögum því við erum verðmætari. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það myndist álíka markaður fyrir konur þrátt fyrir að þær séu veikari skákmenn.“

Hann segir að ákveðnar áhyggjur hafi verið viðraðar í þessu sambandi. „Það gæti gerst, eins og bent hefur verið á í umræðunni, að þær lendi allar á áttunda borði, sem er seinasta borðið, og tefli bara sín á milli. Þetta er auðvitað ekki fullkomin hugmynd og sjálfsagt þarf að útfæra þetta betur.“

Hjörvar segist hafa viljað varpa þessu fram til að fá viðbrögð skáksamfélagsins við hugmyndinni. „Við erum allir sammála um að það vantar fleiri stelpur í skákina. Þessi vandi einskorðast ekki við Ísland, þetta er úti um allan heim. En það veit enginn hvernig á að leysa hann. Búið er að reyna að vera með stelpuæfingar og hitt og þetta sem virðist hins vegar ekki skila miklum árangri.“

„Strákarnir fara þetta á þrjóskunni“

Þá segir hann erfitt að koma auga á rót vandans. „Fyrst og fremst byggist þetta á því að við missum stelpurnar alltof ungar úr íþróttinni, rétt eins og í mörgum öðrum. Þær missa áhugann kannski vegna þess hversu fáar stelpur eru að iðka þetta með þeim. Þetta er að vissu leyti mjög félagslegt fyrir þær á meðan við strákarnir getum oft farið þetta á þrjóskunni.“

Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands segir hugmyndina ekki nýja af nálinni. „Menn hafa velt þessu upp áður en ekki talið íslensk skáklið bjóða upp á þessa breytingu. Mér finnst alveg koma til greina að skoða þetta,“ segir Gunnar.

Rætt á næsta stjórnarfundi

Hann telur að erfitt gæti reynst að keyra þessa breytingu í gegn. „Það verða ekki öll félög hlynnt þessu úrræði og ég sé alveg ákveðna andstöðu gegn þessu. Þetta myndi þýða að einhverju leyti að menn myndu flytja erlendar skákkonur hingað til lands til að keppa. Svona reglugerð getur hins vegar verið góð til lengri tíma litið því hún getur hvatt stelpurnar áfram og hlýtur sömuleiðis að hvetja félögin til að byggja upp starf fyrir stelpur.“

Gunnar segir að lokum að hann muni taka málið fyrir á næsta stjórnarfundi sambandsins, sem haldinn verður í næstu viku.

Lenka Ptácníková keppir hér við Helga Ólafsson.
Lenka Ptácníková keppir hér við Helga Ólafsson. mbl.is/Ómar
Hjörvar Steinn Grétarsson stórmeistari.
Hjörvar Steinn Grétarsson stórmeistari.
Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands.
Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert