Hjónavígslur verði alfarið borgaralegar

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrír þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að innanríkisráðherra verði falið „að vinna og leggja fram nauðsynlegar lagabreytingar svo að hjónavígsluréttindi og skráning nafngifta verði alfarið flutt til borgaralegra embættismanna.“ Frumvörp þess efnis verði lögð fram sem fyrst og ekki síðar en 31. mars 2016.

„Lagt er til að hjónaefni þurfi ætíð að leita til borgaralegra embættismanna til að fá vígslu og það sama gildi um skráningu á nafngiftum ungbarna. Vitaskuld yrði hverjum og einum frjálst að sækja þá blessun sem trú viðkomandi boðar á hvaða hátt sem er. Slíkur gjörningur hefði hins vegar ekkert gildi gagnvart hinu opinbera heldur varðaði einungis trúarsannfæringu hvers og eins,“ segir meðal annars í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Fyrsti flutningsmaður er Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, en meðflutningsmenn eru Brynhildur Pétursdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Frétt mbl.is: Trúfélög sjái ekki um hjónavígslur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert