Mátti ekki innheimta gjaldið

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Suðurlands um lögbann á innheimtu Landeigendafélags Geysis á aðgangseyri að Geysissvæðinu.

Fram kemur í dómsorði að félagið hafi með því brotið á réttindum ríkisins sem meðeiganda að svæðinu enda hafi félagið verið byrjað að innheimta gjaldið áður en lögbannið var samþykkt.

„Þessar athafnir brutu gegn réttindum, sem stefndi naut yfir landsvæðinu sem einn af eigendum meginhluta þess og einkaeigandi að hinum hlutanum, og voru þær fallnar til að spilla þeim réttindum svo að teljandi væri, enda fólu þær í sér að áfrýjandi tók án heimildar í sínar hendur forræði á ákvörðun um hvort fénýta ætti þessi réttindi,“ segir ennfremur.

Dómur héraðsdóms féll í október á síðasta ári en Landeigendafélags Geysis áfrýjaði dómnum.

Hæstiréttur dæmdi ennfremur Landeigendafélag Geysis til að greiða íslenska ríkinu eina milljón króna í málskostnað fyrir Hæstarétti. Áður hafði héraðsdómur dæmt félagið til þess að greiða ríkinu 800 þúsund krónur í málskostnað í héraði.

Frétt mbl.is: Staðfesti lögbann á gjaldtöku

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert