Verkfallið mun hafa víðtæk áhrif

Nánast öll upplýsingagjöf til viðskiptavina mun liggja niðri samkvæmt tilkynningu …
Nánast öll upplýsingagjöf til viðskiptavina mun liggja niðri samkvæmt tilkynningu embættis tollstjóra. mbl.is/Rósa Braga

Yfirvofandi verkfall félagsmanna Starfsmannafélags ríkisins (SFR)  mun hafa víðtæk áhrif á starfsemi embættis tollstjóra, ef af verður. Umtalsverð röskun verður bæði á innheimtu- og tollasviði embættisins

Þetta segir í tilkynningu frá tollstjóraembættinu. Verkfallið SFR hefur verið boðað þann 15. október næstkomandi og er ótímabundið.

Afgreiðsla og símsvörun skiptiborðs og þjónustuvera í Tollhúsinu Tryggvagötu verður lokuð og skert þjónusta verður á öðrum starfsstöðvum.  Vegna verkfalls verður m.a. ekki hægt að taka á móti tollskjölum á pappír og bráðabirgðatollafgreiðslur munu liggja niðri. Ekki verða gefin út upprunavottorð og farmskrárvinnsla stöðvast. Nánast öll upplýsingagjöf til viðskiptavina mun liggja niðri. Gjaldkerar embættisins verða einnig í verkfalli og því verður ekki hægt að færa greiðslur sem greiddar eru á bankareikninga embættisins inn á skattkröfur fyrr en að verkfalli loknu. 

Verkfall mun ekki hafa áhrif á greiðsluskyldu gjaldenda eða lögboðna gjalddaga og eindaga. Áfram verður hægt að greiða greiðsluseðla í heimabanka. Verkfallið mun ekki hafa áhrif á rafræna tollafgreiðslu (EDI/SMT) eða tollafgreiðslu flugvéla og skipa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert