„Hausinn þarf að vera fullkomlega í lagi“

Þurý er fyrsta íslenska konan til þess að taka þátt …
Þurý er fyrsta íslenska konan til þess að taka þátt í heimsmeitaramótinu í Járnkarli tvisvar Ljósmynd úr einkasafni

Íslensk kona, Þurý Guðmundsdóttir, tekur þátt í heimsmeistaramótinu í Járnkarli sem fram fer á Kailua Kona á Hawaii í dag. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem hún tekur þátt á þessu móti því hún gerði það einnig í fyrra. Hún er fyrsta íslenska konan sem tekur þátt á heimsmeistaramóti tvisvar.

Þurý er ekki eini íslenski keppandinn á svæðinu, því Geir Ómarsson tekur einnig þátt. 

„Mér líður bara mjög vel,“ sagði Þurý í samtali við mbl.is í gær, en þá var klukkan sjö að morgni og sólarhringur í keppni. Í lok júní tók hún þátt í Járnkarlskeppni í Idaho í Bandaríkjunum og þar vann hún sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu.

Hún segir að keppnin í fyrra hafi verið mjög erfið. „Það var mjög mikið rok á brautinni og tíminn var ekki sá sem ég vildi að hann yrði. En var mjög ánægð að hafa klárað enda voru mjög margir sem gerðu það ekki. Þetta var alveg gífurlega erfitt en skemmtilegt.“

Keppti í 42 stiga hita í sumar

Þurý segist hafa verið að þjálfa sig fyrir keppnir í Járnkarli í um tvö ár með hléum. Á þeim tíma hefur hún tekið þátt í þremur Járnkörlum og verður þetta hennar fjórði. Í ár stefnir hún að því að bæta árangur sinn frá því á síðasta ári.

„Í fyrra var þetta frekar bara um það að vera með og klára. Núna stefni ég að því að vera með betri tíma og vera framar í mínum aldursflokki,“ segir Þurý en hennar aldursflokkur er 50-54 ára. Þurý hafnaði í 31. sæti í sínum aldursflokki í fyrra en í ár stefnir hún að því að komast í topp tuttugu.

Hún segir mjög heitt og rakt á Kona þessa  dagana. „Það er mjög misjafnt hvernig það fer í fólk. Í Idaho, þar sem ég keppti í sumar komst hitinn upp í 42 stig þannig að ég ætti að geta þetta.“ Þurý segir að það sé oft mikið rok og að það hafi verið raunin í fyrra. „Það truflar aðallega í hjólreiðunum og stundum í sundinu þar sem það er mikill öldurgangur. En núna lítur veðurspáin vel út. Klukkan er að verða sjö að morgni og við ætlum að fara aðeins og synda í sjónum,“ segir Þurý.

Hlustar á niðurtalninguna í sjónum

Aðspurð út í sundið segir Þurý mikla spennu út í sjónum rétt áður en keppnin hefst. 3,8 kílómetra sund er fyrsta þraut Járnkarlsins og eru þeir fljótustu um tæpa klukkustund að klára. „Það er alveg ótrúleg spenna rétt fyrir sundið. Maður stendur úti í sjónum og hlustar á niðurtalninguna, auðvitað spenntur en reynir líka að halda taugum í lagi,“ segir hún og bætir við að það myndist töluvert kraðak þegar að hver hópur byrji að synda en keppendum er skipt í fjóra hópa. Þurý stefnir að því að klára sundið á innan við einum og hálfum tíma.

Eftir sundið taka við hjólreiðar en leiðin er 180 kílómetrar. Hún segir mikilvægt að nærast reglulega eftir sundið. Ég reyni að borða og drekka 300 kaloríur á klukkutíma. Ég er með klukku sem minnir mig á að borða á fimmtán mínútna fresti. Það er mjög misjafnt hvað fólk er með en ég verð með fíkjukökur og íþróttadrykk með kaloríum í.“

Þurý lýkur síðan keppninni á því að hlaupa maraþon eða heila 42.195 kílómetra.

Má ekki láta neikvæðar hugsanir yfirbuga sig

En hvernig er eiginlega tilfinningin þegar maður er loksins búinn?

„Ég er yfirleitt alveg full af orku og adrenalínið er á fullu. Maður er bara svo rosalega ánægður að vera búinn. Svo er mjög gaman að fylgjast með öðrum klára og upplifa alla þessa stemmningu á staðnum sem bara æðisleg.“

Hún segir mikilvægt að andlega hliðin sé í góðu lagi í þessari krefjandi keppni. „Hausinn þarf að vera fullkomlega í lagi. Það er mjög stór partur af þessu að láta ekki neikvæðar hugsanir um hvað þetta er erfitt stoppa sig. Það má ekki einblína á þær heldur nota einhver góð ráð til að láta þær hugsanir ekki yfirtaka hugann og halda þannig áfram.“ 

Elsti keppandinn 85 ára

Þurý segir það ótrúlega upplifun að vera umkringd helstu Járnkörlum heims dagana fyrir keppni. „Við erum búin að vera hér í viku og það er rosalega skemmtileg stemmning og gaman að vera hérna. Maður keyrir eftir aðalgötunni, Ali'i Drive og sér besta þríþrautarfólk í heimi hlaupa, hjóla, synda og undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið. Það er einstök upplifun sem frábært er að taka þátt í.“

Hún segir það misjafnt hvað fólk gerir eftir keppni. Hennar plan er að vaka til miðnættis en þá myndast skemmtileg stemmning þegar fólk fer að hvetja þá sem eftir eru í keppninni. „Keppendur hafa 17 tíma til þess að klára. Það skemmtilega er að hér er fólk á öllum aldri. Elsti keppandinn er 85 ára.“

Hún segist ekki hafa mikla matarlyst beint eftir keppni. „En eftir smá tíma fæ ég mér kannski hamborgara og bjór,“ segir hún.

Þurý ætlar að vera nokkra daga á Kona á Hawii eftir keppnina með eiginmanni og systur frá Íslandi.

Hér má sjá Þurý keppa í Járnkarlinum í Kanada.
Hér má sjá Þurý keppa í Járnkarlinum í Kanada. Ljósmynd úr einkasafni
Þurý kemur í mark í Járnkarlinum í Kanada.
Þurý kemur í mark í Járnkarlinum í Kanada. Ljósmynd úr einkasafni
Þurý ásamt Íslendingnum Geir Ómarssyni sem einnig tekur þátt í …
Þurý ásamt Íslendingnum Geir Ómarssyni sem einnig tekur þátt í heimsmeistaramótinu í dag. Ljósmynd úr einkasafni
Þurý er búin að vera á Hawaii ásamt fjölskyldu sinni …
Þurý er búin að vera á Hawaii ásamt fjölskyldu sinni í viku. Ljósmynd úr einkasafni
Þurý segir mikilvægt að andlega hliðin sé í lag.
Þurý segir mikilvægt að andlega hliðin sé í lag. Ljósmynd úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert